„Við erum í raun bara að bíða og sjá hvort þetta ágæta fólk nái saman og erum að vinna í að þróa plan b ef það gengur ekki upp,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í samtali við mbl.is spurð út í þreifingar vegna stjórnarmyndunar. Vísar hún þar til Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem átt hafa í óformlegum viðræðum að undanförnu.
Varaáætlunin sem Birgitta nefnir er að Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin geri aðra tilraun til þess að mynda fimm flokka ríkisstjórn. Hún segir Pírata hafa haft samband við formenn hinna fjögurra flokkanna og engan hafa hafnað því. Birgitta segir fyrri tilraun til þess að mynda slíka stjórn ekki hafa verið fullreynda. Píratar vilji að þráðurinn verði tekinn upp að nýju en með nýstárlegri nálgun.
„Þeir þrír flokkar sem reyndu fyrst eru nú að taka upp þráðinn aftur á grundvelli tæps meirihluta og sögulega minnsta vægis atkvæða. Ef þeim tekst að mynda ríkisstjórn myndi ég telja að það þyrfti enn meiri lagni en í tilfelli þessara fimm flokka. Það yrði að finna lausnir sem allir væru 100% á bakvið. Líka óvæntu hlutina,“ segir Birgitta.
Takist slíkt stjórnarsamstarf takist það hins vegar einfaldlega. Hún segist vonast til þess að þessir þrír flokkar kalli þá fram það besta í hverjum öðrum og að Viðreisn og Björt framtíð standi við yfirlýsingar um bætt vinnubrögð og frjálslyndar áherslur. Píratar hafa að öðru leyti ekki verið í viðræðum um mögulega stjórnarmyndun segir Birgitta.
Birgitta gefur lítið fyrir hugmyndir úr röðum VG um stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, VG og Pírata. Það þýddi samstarf við tvo flokka sem sem vildu í raun engar kerfisbreytingar sem aftur myndi þýða að Píratar myndu ekki ná sínum helstu áherslumálum í gegn. „Vegna þess að þau ná saman í miklum fleiri málum en við myndum ná saman við þau í.“
Þannig væru meiri líkur á að ná fram kerfisbreytingum í fimm flokka ríkisstjórn en með til dæmis Sjálfstæðisflokknum og VG. Nefnir Birgitta sérstaklega stjórnarskrárbreytingar sem og breytingar á sjávarútvegskerfinu í þeim efnum. Meira jafnræði væri ennfremur á milli flokka í slíkri stjórn og meiri breidd en í mögulegri stjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.