Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, afþakkaði boð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að taka sæti í núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Tilboðið fékk Benedikt í hádeginu í gær.
„Það var löngu ljóst að við ætluðum ekki að ganga inn í þessa ríkisstjórn. Ég sagði við hann [Bjarna] að við hefðum verið í öðrum viðræðum við hann,“ segir Benedikt og vísar til viðræðna Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sem slitnaði upp úr fyrr í mánuðinum.
Benedikt útilokar hins vegar ekki samstarf með Framsóknarflokknum.
„Við ættum að reyna að opna viðræðurnar meira en við höfum verið að gera í ljósi þess sem forsetinn hefur sagt,“ segir Benedikt. Hann segir stjórnmálaflokkana alla vera að tala saman. „Kannski eru að opnast nýir möguleikar sem ekki voru áður."