Lögreglumaðurinn fyrrverandi, Jens Gunnarsson, sem ákærður hefur verið af embætti ríkissaksóknara fyrir meinta spillingu í starfi, var eftir að hann lét af störfum hjá lögreglunni ráðinn til öryggisfyrirtækisins Öryggismiðstöðvarinnar. Þar lét hann aftur á móti af störfum þegar ákæran var gefin út. Stærsti eigandi Öryggismiðstöðvarinnar stýrði félaginu Kjalari sem átti um 10% hlut í Kaupþingi og er hann einn helsti viðskiptafélagi Ólafs Ólafssonar fjárfestis.
Annar maður sem einnig er ákærður fyrir spillingu í málinu, Gottskálk Þorsteinn Ágústsson, vinnur sem framkvæmdastjóri hjá Öryggismiðstöðinni, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu mun hann áfram starfa sem framkvæmdastjóri öryggissviðs meðan málið er í gangi fyrir dómstólum.
Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Öryggismiðstöðvarinnar, segir í samtali við mbl.is að málið tengist ekki rekstri félagsins, en það sé hvorki þægilegt né skemmtilegt fyrir það. Segir hann málið nú fara hefðbundna leið í dómskerfinu og að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að víkja Gottskálk frá störfum eða senda hann í leyfi meðan málið er í gangi. Málið sé þó til skoðunar.
Öryggismiðstöðin er sem fyrr segir öryggisfyrirtæki sem starfar sem slíkt með starfsleyfi frá ríkislögreglustjóra. Er framkvæmdastjórinn því í raun ákærður fyrir spillingu í tengslum við embættismann hjá undirstofnun þess sem veitir félaginu rekstrarleyfi sitt, en Jens starfaði hjá fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrirtækið sinnir alhliða öryggisþjónustu, en í því felst gæsla fyrir fyrirtæki og einstaklinga, rekstur á stjórnstöð, brunavarnir, myndavélaeftirlit og fleira. Samkvæmt Ómari er hlutdeild Öryggismiðstöðvarinnar á markaði um 40% á móti Securitas sem er hitt stóra öryggisfyrirtækið, en auk þess eru nokkrir minni aðilar einnig á markaðinum.
Eftir að málið kom upp á sínum tíma var Jens ráðinn til starfa hjá Öryggismiðstöðinni. Ómar segir að menn hafi vitað um málið, en um tímabundin sérverkefni hafi verið að ræða sem hafi meðal annars falist í námskeiðahaldi. Segir hann að skilningur hafi verið um það þegar Jens var ráðinn að ef ákært yrði í málinu myndi hann láta af störfum sem hann hefur nú gert.
Í ákæru málsins kemur fram að Gottskálk hafi verið í samskiptum við Jens og lofað honum 500 þúsund króna greiðslu og tveimur flugmiðum fyrir skýrslu PriceWaterHouseCoopers um Kaupþing banka sem bar yfirskriftina „Slitastjórn Kaupþings banka hf. „Project Staying Alive“ September 2010. Strictly confidential.“
Eigendur Öryggismiðstöðvarinnar eru helstu stjórnendur félagsins með 40% og félagið Unaós ehf. með 60%. Unaós er í eigu Hjörleifs Jakobssonar, eins helsta viðskiptafélaga fjárfestisins Ólafs Ólafssonar. Er Unaós einnig skráð á heimilisfang skrifstofu Samskipa, sem Ólafur er aðaleigandi að.
Ólafur var næststærsti hluthafi Kaupþings í gegnum fjárfestingafélagið Kjalar sem hann á 90% hlut í. Þá var Kjalar stærsti lántaki bankans frá miðju ári 2006 og voru lán félagsins við fall bankans um 18% af eiginfjárgrunni bankans. Hjörleifur var forstjóri Kjalars og situr nú í stjórn Samskipa.
Ólafur hefur meðal annars verið sakfelldur fyrir þátt sinn í Al Thani-málinu svokallaða og þá fengu félög hans, Partridge Management Group og Harlow Equities, lán til að eiga í viðskiptum með skuldatryggingarafleiður Kaupþings sem ákært var fyrir í Chesterfield-málinu. Ólafur var þó ekki ákærður í þeim málum, heldur stjórnendur Kaupþings.
Þriðji maðurinn sem er ákærður í málinu er Pétur Axel Pétursson, en hann hefur áður hlotið dóma vegna fíkniefnamála. Hann og Jens eru ákærðir vegna meintra brota þegar Jens upplýsti Pétur um stöðu mála hans hjá lögreglunni og um hverjir væru uppljóstrarar lögreglunnar. Tók Jens við gjöfum vegna þessa samkvæmt ákærunni.
Uppfært kl 23:21:
Eftirfarandi tilkynning barst frá Ólafi Ólafssyni vegna fréttarinnar:
Frétt Mbl.is og Morgunblaðsins er hvað mig varðar röng og felur í sér aðdróttanir sem eru ærumeiðandi. Efni fréttarinnar tengist mér ekki á nokkurn hátt. Álíka gáfuleg nálgun blaðamanns væri að nefna tengsl þeirra þúsunda annarra Íslendinga sem áttu hlut í Kaupþingi í tengslum við þessa frétt. Það geta varla talist eðlileg né fagleg vinnubrögð að bendla óviðkomandi við fréttir. Ég tengist ekki Öryggismiðstöðinni, né þeim sem ákærðir eru í umræddu spillingarmáli, né tilraunum til að kaupa umrædda skýrslu. Óskum um leiðréttingu hefur verið komið á framfæri við blaðamanninn sem um ræðir enda brýtur hann 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands en þar segir; „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“ Í þessari frétt er farið með fleipur og efni hennar hvað mig varðar hefur ekki verið borið undir mig. Ég krefst ennfremur formlegrar afsökunarbeiðni hlutaðeigandi á því að hafa verið bendlaður við þessa frétt sem er mér, eins og áður er sagt, með öllu óviðkomandi.
mbl.is stendur við frétt sína um málið.