Telur ástæðu til að íhuga þjóðstjórn

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum aðallega að ræða efnahagsmálin og ríkisfjármálin og það er ekkert hægt að segja að það hafi slitnað upp úr þessum viðræðum enda voru þær bara óformlega. En við mátum ekki grundvöll til þess að fara í formlegar viðræður,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - grænd framboðs, í samtali við mbl.is spurð um viðræður hennar við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um mögulegt stjórnarsamstarf. Viðræðunum lauk í dag en tilgangurinn var að meta hvort forsendur væru fyrir formlegum viðræðum.

„Mér fannst þetta mjög gott samtal og gott fyrir okkur formenn þessara tveggja flokka, sem eru hvort á sínum væng stjórnmálanna, að eiga það. Ég held að það hafi aukið skilning okkar á ólíkum sjónarmiðum sem var bara mjög jákvætt og gott. En eins og ég hef sagt er mjög langt á milli flokkanna. Ekki síst þegar kemur að þáttum eins og þeim sem verið hafa efst á borði eins og varðandi tekjuöflun ríkisins og útgjöld. Það var svo sem vitað fyrir en það er ekki hægt að segja að það hafi steytt á einhverju tilteknu heldur er bara málefnalega og hugmyndafræðilega svolítið langt á milli þessara tveggja flokka,“ segir Katrín.

Staðan sé hins vegar orðin flóknari og fyrir vikið hafi hún sagt að ástæða væri til að íhuga hreinlega að koma einhvers konar þjóðstjórn á laggirnar í einhvern tíma ef annað gengur ekki. „Kannski þarf bara að íhuga þann möguleika.“ Þjóðstjórn felur í sér samstjórn allra eða flestra stjórnmálaflokka á Alþingi en slík stjórn hefur einu sinni setið hér á landi samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands en það var á árunum 1939-1942. Stjórnin var samsteypustjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem naut stuðnings Bændaflokks.

Spurð hvort Píratar, Viðreisn, Björt framtið og Samfylkingin hafi haft samband við hana varðandi möguleikann á að taka aftur upp þráðinn varðandi mögulega fimm flokka stjórn miðju- og vinstriflokka segir Katrín að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hafi haft samband við hana. „Við eigum bara eftir að ræða það í okkar þingflokki.“ Spurð hvort þingflokksfundur sé fyrirhugaður segir hún það ekki liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert