Viðræðum Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf flokkanna hefur verið slitið. Þetta staðfestir Bjarni í samtali við mbl.is en viðræðurnar, sem voru óformlegar, hófust í fyrradag og var forsetanum tilkynnt um þær.
„Við ákváðum að við myndum ekki halda viðræðunum áfram,“ segir Bjarni. Spurður um ástæður þess segir hann: „Það var að mínu viti nauðsynlegt að þessi flokkar settust niður að afstöðnum kosningum til þess að ræða mögulegt samstarf. Það var mikilvægt og ágætur andi í viðræðunum. Á sama tíma vorum við hreinskilin með það að það væri bil að brúa málefnalega og af ýmsum öðrum ástæðum. Við tókum nokkra daga í að ræða þá stöðu og fórum mjög vítt yfir. En að lokum varð það niðurstaðan að það væri ekki grundvöllur fyrir því að fara í formlegar viðræður.“
Spurður áfram hvort samstarf Sjálfstæðisflokksins og VG sé útilokað segir Bjarni: „Nei, nei. Það er aldrei neitt útilokað. En þetta er staðan núna að minnsta kosti.“ Bjarni segir aðspurður að ekki hafi spilað inn í umræða um mögulegan þriðja samstarfsflokk. Það hafi í raun ekkert verið rætt af neinni alvöru. „Við vorum meira að láta reyna á það hvort þessir tveir flokkar gætu náð málefnalega saman og orðið sterkir samstarfsaðilar. Það skiptir líka máli til hliðar við einstök málefni hvernig mönnum líst á að hella sér út í alvöru samstarf.“
Inntur eftir því hvort Sjálfstæðisflokkurinn og VG hafi færst nær við þessar viðræður eða fjarlægst segir Bjarni: „Ég held að flokkarnir hafi nú fengið aukinn skilning á afstöðu hvors annars á hinum ýmsum málum. En ekki nóg í þessari umferð til þess að úr verði ríkisstjórn.“ Hvað framhaldið varðar segir Bjarni aðspurður að það sé mjög óráðið.
„Ég hef litið svo á að eini samstarfskostur okkar miðað við þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar í þessari stöðu sem enn væri órannsakaður til fulls í þessari umferð sé samstarf við Viðreisn og Bjarta framtíð. En miðað við þær yfirlýsingar sem þeir gefa núna þá kjósa þeir heldur að freista þess að mynda fimm flokka stjórn,“ segir hann.
Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu ekki með meirihluta saman og enginn hafi opnað á samtal við þessa flokka tvo saman sé eini kosturinn að láta reyna á eins manns meirihluta Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjarta framtíð. „En það virðist ekki vera uppi á borðinu eins og sakir standa af þeirra hálfu miðað við það sem ég les í fjölmiðlum. Og þá er það bara staðan.“
Vísar Bjarni þar til frétta af því að Viðreisn og Björt framtíð séu í óformlegum viðræðum við Samfylkinguna og Pírata um mögulegt samstarf flokkanna.