Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur falið Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, umboð til stjórnarmyndunar. Þetta kom fram á blaðamannafundi á Bessastöðum.
Guðni væntir þess að fá upplýsingar strax upp úr helgi um gang stjórnarmyndunarviðræðna. „Þótt talsverður tími hafi liðið frá kosningum er engin þörf á óðagoti,“ sagði hann.
„Það er enn þá nægur tími til stefnu. Ég veit að við munum fá ríkisstjórn fyrr en seinna.“
Guðni hvatti jafnframt stjórnmálamenn til að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem er á þeirra herðum um að mynda ríkisstjórn.
Frétt mbl.is: Birgitta mætt á Bessastaði
Forsetinn tók fram að fordæmi hafi verið fyrir ákvörðun sinni um að láta engan hafa umboðið til stjórnarmyndunar eftir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, skilaði því í síðustu viku. Nefndi hann árin 1978, 1983 og 1987 í því samhengi.