„Við vorum bara að ræða stöðuna svona fram og til baka. Hvaða möguleikar væru og hvaða möguleikar væru ekki,“ sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, eftir að hann hafði fundað með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á skrifstofu hans við Sóleyjargötu í Reykjavík. Sagði hann tímabært að flýta sér hægt í stjórnarmyndunarviðræðum, leyfa rykinu að setjast og hugsa sig aðeins um.
Spurður hvort hann væri sammála Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að eðlilegast væri að Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð hæfu stjórnarmyndunarviðræður sagði Benedikt svo ekki endilega vera. „Nei, ég er nú ekki alveg sammála því.“ Slík stjórn hefði enn aðeins 32 þingmanna meirihluta.
Hins vegar ætlaði hann ekki að vera með neinar yfirlýsingar í þeim efnum. „En fimm flokka stjórnin er líka möguleiki.“ Hugsanlega þyrfti að temja sér önnur vinnubrögð við stjórnarmyndunina, vinna hægar mögulega, tala skýrar og ekki láta „einhver skrítin sjónarmið ráða.“
Spurður hvort viðræðurnar væru í raun að eiga sér stað of hægt sagði hann að menn væru eiginlega á byrjunarreit. Menn hefðu hins vegar hugsanlega flýtt sér of mikið í hverjum viðræðum fyrir sig og ekki gefið þeim nægan tíma.
„Svo þarf fólk líka bara að hvíla sig, við erum nú bara venjulegt fólk sem þarf líka stundum að eiga daginn með fjölskyldunni.“