„Það er oft erfitt að mynda ríkisstjórn án Framsóknarflokksins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í samtali við fjölmiðla eftir fund hans með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á skrifstofu forsetans við Sóleyjargötu í Reykjavík. Forsetinn hefur í dag fundað með forystumönnum stjórnmálaflokkanna.
Sigurður Ingi svaraði þar vangaveltum um það hvort Framsóknarflokkurinn þyrfti hugsanlega að koma að formlegum viðræðum um stjórnarmyndun í ljósi þess að flokkurinn hefði stundum verið límið sem gert hefði stjórnarmyndanir mögulegar. Sigurður tók undir þetta en Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem ekki hefur tekið þátt í formlegum viðræðum.
Spurður hvort hann hefði tjáð forsetanum að hann myndi vilja fá stjórnarmyndunarumboð svaraði hann því ekki beint en sagði Framsóknarflokkinn vera reiðubúinn sem fyrr að taka þátt í stjórnarmyndun. Spurður hvort hann væri sammála því að þreyta væri komin í fólk og að rétt væri að gera nokkurra daga hlé á viðræðum sagði Sigurður nokkuð til í því.
„Maður hefur bara séð það og heyrt á fólki að það er svona orðið svolítið þreytt á þessum viðræðum. Við framsóknarmenn erum reyndar ekki þreyttir og þegar maður er í stjórnmálum þá þarf maður stundum að bretta upp ermarnar og gera það sem gera þarf.“
Sigurður Ingi lagði hins vegar áherslu á að það væri starfsstjórn í landinu og allt væri „undir kontról“. Aðspurður sagðist hann reiðubúinn að taka við stjórnarmyndunarumboði.