Vill að gert verði hlé á stjórnarmyndun

Katrín Jakobsdóttir ræðir við fjölmiðla eftir fundinn með forseta Íslands.
Katrín Jakobsdóttir ræðir við fjölmiðla eftir fundinn með forseta Íslands. mbl.is/Hjörtur

„Ég held að fólk sé orðið ansi þreytt eftir þessar lotur sem hafa verið. Það á að minnsta kosti við um mig,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - grænt framboð, eftir fund hennar með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á skrifstofu hans við Sóleyjargötu í Reykjavík. Forsetinn fundar með forystumönnum flokkanna í dag um stjórnarmyndunarmál.

Katrín sagðist þeirrar skoðunar að rétt væri að geyma frekari stjórnarmyndunarviðræður fram yfir helgi og þess í stað væri einbeitt sér að undirbúningi fyrir störf þingsins en stefnt er að því að Alþingi komi saman á þriðjudaginn. „Ég held að það sé enginn sérstakur voði þó við tökum smá hlé til umhugsunar.“

Spurð hvort hún vildi gera aðra tilraun með fimm flokka ríkisstjórn með Pírötum, Viðreisn, Bjartri framtíð og Samfylkingunni sagði Katrín VG ekki hafa útilokað það en fara þyrfti yfir málin í þingflokknum. „Við höfum allan tímann nálgast þetta fyrst og fremst út frá málefnunum og kannski voru það þau sem spiluðu fyrst og fremst inn í þegar upp úr slitnaði síðast.“

Katrín sagðist hafa greit forsetanum frá þessari skoðu sinni. Mikilvægt væri að þingið tæki til starfa og tækist á við þau verkefni sem það þyrfti að taka fyrir. „Ég tel að það verði ekki vandamál þó það sé ekki búið að mynda ríkisstjórn fyrir þann tíma.“ Flokkarnir hefðu gott af því að fá smá andrými fyrir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert