„Ég bara sé ekki annað en að þetta muni ganga,“ sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun, spurður um stöðuna í óformlegum viðræðum fimm flokka um stjórnarmyndun. Viðræðurnar hafa staðið yfir undanfarna daga á milli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar.
Smári sagðist aðspurður telja að viðræðurnar nú væru komnar miklu lengra en síðast þegar flokkarnir fimm ræddu saman undir verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Viðræðurnar nú eru undir verkstjórn Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanns Pírata. Smári sagði mikinn samstarfsvilja vera ríkjandi í viðræðunum. Samstaða væri um að ræða ekki við fjölmiðla um hvert skref enda gæti það ógnað stöðunni sem væri mjög viðkvæm. Þegar einhver niðurstaða lægi fyrir yrði það birt. Sagðist hann vonast til þess að hægt yrði að birta eitthvað á næstunni.
Komin væri sátt í nokkrum málum og nokkur flókin mál eftir. Stjórnarskrármálið væri langt komið og viðræður hefðu farið fram um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Munurinn á milli flokkanna fimm væri í raun ekki mikill í grunninn. Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, lýsti furðu sinni á því að viðræðurnar nú væri komnar miklu lengra en síðast. Sagði hann það koma verulega á óvart. Ekki síst í ljósi þess að yfirstandandi viðræður væru óformlegar en ekki formlegar. Tók Björn Valur fram að hann væri ekki sjálfur þátttakandi í viðræðunum.
Fá þyrfti sem fyrst úr því skorið hvort hægt væri að mynda þá stjórn sem viðræður stæðu yfir um. Björn sagðist sjá fyrir sér að hægt yrði að setja á laggirnar ríkisstjórn um tiltekin mikilvæg verkefni. Slík stjórn þyrfti ekki endilega að vera meirihlutastjórn. Hún þyrfti fyrst og fremst að njóta nauðsynlegs stuðnings í þeim málum sem hún þyrfti að takast á við.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði aðspurð að hennar flokkur ætti ekki í viðræðum um stjórnarmyndun við aðra flokka á meðan viðræður flokkanna fimm væru í gangi. Sjálfstæðisflokkurinn væri á meðan á hliðarlínunni. Sagði hún að henni þætti persónulega að viðræðurnar væru farnar að taka talsvert langan tíma.