Ekki á einu máli um framhaldið

Formenn funda.
Formenn funda. mbl.is/Árni Sæberg

Viðræður flokkanna fimm sem síðast reyndu stjórnarmyndun fóru ekki bara út um þúfur vegna ágreinings um ríkisfjármálin; lending náðist ekki heldur í umræðum um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Frá þessu greindi Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, í Kastljósi.

Í þættinum var rætt við fulltrúa þeirra sjö flokka sem eiga þingmenn á Alþingi. Til umræðu var sú staða sem upp er komin, nú þegar umboð til stjórnarmyndunar liggur kyrrt hjá forseta eftir nokkrar tilraunir.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, reið á vaðið og sagði síðustu kosningar hafa verið byltingarkenndar. Niðurstöður þeirra hefðu verið þær að gömul mynstur væru ekki lengur á boðstólnum og því væri ekki skrýtið að það tæki tíma að máta eitthvað nýtt.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Árni Sæberg

Tímabilið frá kosningum hefur verið gefandi og upplýsandi, sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, en hún sagðist m.a. hafa fengið innsýn í það hvar menn settu sín mörk. Hún sagði að flokkarnir fimm sem síðast ræddu saman hefðu farið mikið og djúpt ofan í málin en það væri snúið að miðla málum milli fimm flokka og augljóst að menn þyrftu að gefa eftir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði það að einhverju leyti skiljanlegt að flókið væri að mynda ríkisstjórn en öðru leyti ekki. Þær góðu aðstæður sem væru uppi ættu ekki að halda fólki frá því að vilja taka við stjórnartaumunum. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur ekki átt formlega aðild að stjórnarmyndunarviðræðum í kjölfar kosninganna og sagði Sigurður að sér virtist, sem áhorfanda, vandamálið liggja í því að það gætu ekki allir fengið allt.

Katrín Jakobsdóttir, fomaður Vinstri grænna, á Bessastöðum.
Katrín Jakobsdóttir, fomaður Vinstri grænna, á Bessastöðum. mbl.is/Ófeigur

„Ég er bara nokkuð hress núna,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, þegar það barst í tal að hún hefði viðurkennt að vera þreytt eftir viðræðuloturnar. Sagðist Katrín hafa fengið sendingar vegna þess, sérstaklega frá karlmönnum, en stjórnmálamenn mættu augljóslega ekki verða þreyttir.

Katrín tók undir með Óttari og sagði undangengna mikla átakatíma í íslenskum stjórnmálum, alveg frá hruni. Hún sagði átökin ekki bara hafa komið fram á hinum hefðbundna vinstri-hægri skala, heldur snúist um önnur mál. Hún sagði að áhugavert yrði að fylgjast með þróun mála, nú þegar enginn meirihluti væri á þinginu; hvort það myndi hafa áhrif á þingstörfin. Talaði hún um „áhugaverða lýðræðislega tilraun“ í þessu samhengi.

Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar.
Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar.

Menn þurfa að nálgast þetta af ákveðinni hógværð, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, spurður að því hvort flokkurinn hefði nú öll spil á hendi. „Þetta er ekki leikur, þetta er alvara,“ sagði hann. Guðlaugur sagði ljóst að ekki yrði hægt að mynda tveggja flokka stjórn en erfiðast væri að eftir kosningar hefðu menn talað eins og þeir væru enn í kosningabaráttu. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn ekki vilja útiloka neina kosti því það þyrfti jú að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, vildi ekki gera mikið úr því að stjórnarmyndunarviðræðurnar hefðu tekið langan tíma. Hún sagði ferlið á margan hátt hafa verið hollt; flokkarnir hefðu kynnst vel og átt góðar og málefnalegar viðræður. Hrósaði hún Pírötum fyrir að leiða síðustu viðræður þannig að allir hefðu komið sem jafningjar að borðinu og sagði að jafnvel þótt þær hefðu ekki leitt til stjórnarmyndunar, hefðu þær verið gagnlegar. Sagðist hún ekki vilja lýsa ástandinu sem „stjórnarkreppu.“

Fyrri umferð stjórnarmyndunarviðræðna VG, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar.
Fyrri umferð stjórnarmyndunarviðræðna VG, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði rétt að fagna því að flokkarnir væru fleiri og sjónarmið fjölbreyttari. Hann sagðist ekki vilja einblína á vandann og að eitthvað gott myndi skila sér.

Fulltrúarnir voru spurður að því hvað tæki nú við, hvort menn ætluðu að hringjast á eða hreinlega taka sér frí fram yfir áramót. Sigurður Ingi sagðist hafa átt samtöl við alla í gær. Það þyrfti að ljúka ákveðnum málum í þinginu og í raun væru allir sammála um að ráðast þyrfti í ákveðna uppbyggingu innviða, skapa stöðugleika á vinnumarkaði og fleira.

Birgitta áréttaði að það væri ekki svo að ekkert væri að gerast þótt ekki hefði tekist að mynda ríkisstjórn. Mikil vinna ætti sér stað í þinginu við flókin mál. Hún sagði menn vera mjög sammála um mörg mál og það hlyti að vera hægt að vinna áfram með þau, jafnvel þótt menn færu ekki saman í ríkisstjórn.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til orðaskipta kom milli Birgittu og Katrínar, en Katrín ítrekaði að það ætti ekki að líta á það sem „skot“ þótt menn segðu að flokkarnir væru ekki sammála og hefðu ólíkar skoðanir á því hvernig ætti að fjármagna útgjöld. Birgitta sagði hins vegar ósatt sem sagt hefði verið, að aðrir en VG hefðu ekki viljað leggja meira í heilbrigðis- og menntamálin. Svaraði Katrín þá að ekki væri hægt að neita því að menn hefðu ekki komið sér saman um það hvernig átti að fjármagna þessa þætti.

Logi sagði að þrátt fyrir áherslumun varðandi fjármögnun hefðu flokkarnir verið búnir að ná saman um umfangið. Út af stæði „handavinna.“ Inntur eftir því hvað hann meinti með handavinnu, þegar við blasti að nokkuð bæri á milli, útskýrði hann að búið hefði verið að kortleggja stöðuna og hvernig hver og einn vildi ná í tekjur. Flokkarnir væru „glettilega“ nálægt því að ná sátt, sagði hann.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Jóna sagði rétt að nokkuð hefði borið á milli. Strandað hefði á ríkisfjármálunum, landbúnaðinum og sjávarútveginum. Sagði hún að fjórir flokkar hefðu viljað fara í ákveðnar breytingar á þessum kerfum til að tryggja betur hag neytenda en VG hefðu ekki verið tilbúnir til þess.

Katrín brást við þessum orðum með því að segja að það væri „fínt“ að það kæmi fram að ágreiningur hefði verið uppi um útgjaldaaukningu og opinber fjármál. Ekki hefði ríkt einhugur um hversu langt átti að ganga. Sagðist hún hafa rætt það við Benedikt Jóhannsson, formann Viðreisnar, í gær að það væri langt á milli þessara tveggja flokka. Katrín sagði að sér þætti hins vegar slæmt að verið væri að gera sér upp skoðanir á öðrum flokkum. Fólk hefði verið mjög lausnamiðað varðandi landbúnaðinn og allir hefðu viljað kerfisbreytingar í sjávarútveginum en hefðu verið ósammála um hverjar þær ættu að vera.

Óttarr sagði þennan ágreining hluta af nýjum heimi og nýrri pólitík. Sagði hann að finna þyrfti nýjar leiðir til að leysa úr ágreiningi; sá tími væri liðinn að nokkrir sterkir mynduðu meirihluta og réðu málum án þess að menn ræddu saman aftur fyrr en þegar aftur kæmi að kosningum.

Fyrst reyndu að ná saman Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð.
Fyrst reyndu að ná saman Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur gagnrýndi umræðuna um breytingar og sagði að í raun hefði þegar verið ráðist í ýmsar breytingar, t.d. á viðskiptum. Það væri ekki þannig að „nokkrir stórir krakkar á leikvellinum“ réðu öllu. Sagði hann að honum þætti menn vera að tala sig inn í vanda; allir vissu að í ríkisstjórnarsamstarfi þyrftu menn að gera málamiðlanir. Ef flokkarnir væru fleiri en tveir þyrfti að slá meira af. Sagði hann stöðuna þrátt fyrir allt góða og ekkert krísuástand uppi. Hins vegar væru mörg vandasöm verkefni fram undan, t.d. að koma í veg fyrir þenslu.

Þingflokksformaðurinn sagðist sammála Bjarna Benediktssyni um að það væri betra ef færri flokkar en fleiri mynduðu stjórn. Logi mótmælti því hins vegar að fleiri flokkar þýddu fleiri málamiðlanir. Hann sagði fimm flokka til staðar sem vildu ráðast í kerfisbreytingar og sagðist helst vilja mynda stjórn eftir helgi. Katrín sagði flokkana vissulega eiga margt sameiginlegt en enn væri margt sem ekki hefði náðst samkomulag um. Sagði hún ekki miklar líkur á samstarfi VG og Sjáflstæðisflokks.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Spurður að því hvað menn vildu gera, mynda minnihlutastjórn eða hvað, sagðist Óttarr ekki vilja gefast upp. Birgitta tók undir þetta og sagðist vilja að menn héldu áfram að tala saman óformlega. Sigurður Ingi sagði „fléttu“ fullreynda. Hægt væri að mynda meirihlutastjórn, ef ekki þá minnihlutastjórn. Þá kæmi til greina að kjósa í vor. Katrín sagði ekkert að því að opna á minnihlutastjórn, það gæti reynst Alþingi hollt. Guðlaugur sagðist hins vegar sannfærður um að hægt væri að mynda meirihlutastjórn en menn þyrftu að slá af ýtrustu kröfum. Jóna sagði vel hægt að mynda einhvers konar ríkisstjórn og kosningar væru ekki á borðinu.

„Þetta verður hægt. Fegurðin birtist í margbreytileikanum og nú skulum við bara gefa þjóðinni jólagjöf sem endurspeglar stórt litróf samfélagsins,“ sagði Logi, sem átti lokaorðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert