Fleiri flokkar, lengri tími

Frá fundi formanna stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi sem …
Frá fundi formanna stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi sem var haldinn nýverið í stjórnarráðinu. mbl.is/Golli

„Málið eru í raun bara í eðlilegum farvegi. Þó margir séu orðnir óþolinmóðir. Þetta er erfitt, þetta er flókið, þetta tekur tíma. En í rauninni er þetta bara í eðlilegum farvegi. Það hafa ekki einu sinni allir formennirnir enn fengið umboð til stjórnarmyndunar og enginn tvisvar eins og stundum hefur gerst í sögunni. Þannig að þetta er í raun aðeins eðlilegur gangur.“

Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is spurður út í stöðuna í stjórnarmyndunarmálunum. Baldur segir að það sýni sig í Evrópu að því fleiri stjórnmálaflokkar sem eru á þjóðþingum, því lengri tíma taki að mynda ríkisstjórnir. „Ef ég man það rétt tekur um 30 daga að mynda ríkisstjórn í Evrópu. Bæði í Austur- og Vestur-Evrópu. Það er í raun fylgni á milli fjölda flokka á þingi og þess tíma sem það tekur að mynda stjórn.“ Síðan taki lengri tíma að mynda ríkisstjórnir í sumum löndum en öðrum.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor. mbl.is/Kristinn

„Ég held að staðan hérna sé flókin núna vegna þess að íslenska miðjan hefur dregist mjög saman. Þá á ég við Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn sem gátu bæði unnið til hægri og vinstri. Þess í stað eru komnir nýir flokkar sem vilja sjá afdráttarlausar breytingar í ákveðnum málaflokkum og þeir eiga mjög erfitt með að slá af sínum kröfum á meðan að Alþýðuflokkurinn, og síðar Samfylkingin, og Framsóknarflokkurinn gátu farið í báðar áttir.“

Baldur segir þetta vera það nýja í stöðunni og ástæðan fyrir því að eins erfitt sé í fyrsta skipti í áratugi að mynda ríkisstjórn. „Ég held að það spili að sama skapi inn í að þrátt fyrir að oft hafi ríkt tortryggni á milli stjórnmálaleiðtoga hér áður fyrr þá þekktu þeir hvorir aðra, þeir voru í talsambandi og vissu hvernig þeir héldu á málum og væru líklegir til þess að halda á málum þegar reyndi á í stjórnarsamstarfi. Núna eru svo margir nýir leikendur á sviðinu og það treysta ekki allir öllum og átta sig ekki á því hvernig þeir munu haga sér þegar á móti blæs.“

Krefst allt annars hugsunarháttar og vinnubragða

Hvað framhaldið varðar segir Baldur að enn kunni að vera möguleikar í stöðunni á að mynda meirihlutastjórn. Þannig hafi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýst áhuga á að taka upp viðræður á ný við Viðreisn og Bjartri framtíð og ýmsir af þeim flokkum sem reyndu að mynda fimm flokka stjórn hafi kallað eftir því að reynt yrði áfram að mynda slíka stjórn. Einnig hefur verið rætt um möguleikann á minnihlutastjórn í þeim efnum.

Baldur segir að ekki sé komið að þeim tímapunkti enn. Eins og staðan sé í dag sé starfsstjórn við völd sem hafi einungis heimild til að sitja þar til ríkisstjórn hafi verið mynduð. Hins vegar segir hann aðspurður að vissulega væri hægt að breyta henni í minnihlutastjórn ef sérstök ákvörðun yrði tekin um það. Slík stjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefði 29 þingmenn á bak við sig. „Slík minnihlutastjórn gæti í raun samið við hvaða flokk sem er á Alþingi til þess að ná málum í gegn og meira að segja Samfylkinguna.“

Hins vegar krefðist slík stjórn allt annars hugsunarháttar og vinnubragða sem Íslendingar væru ekki vanir. „Ég hef ekki séð að menn séu tilbúnir í þennan farveg sem meðal annars krefst þess að búið sé að tryggja sér stuðning einhverra tiltekinna flokka við mál áður en þau eru lögð fram á þingi. Það krefst þess líka að þeir sem eru á þingi en ekki í stjórn séu reiðubúnir að taka óvinsælar ákvarðanir, styðji ríkisstjórn sem þarf að taka óvinsælar ákvarðanir. Það hefur ekki verið uppi á borðinu hér á landi.“

Baldur segir að erfitt sé að sjá hvers vegna stjórnmálaflokkar geti stutt einhverja flokka í minnihlutastjórn sem þeir geti ekki starfað með í meirihlutastjórn. „Ef flokkar vilja ekki vinna með einhverjum öðrum flokkum í ríkisstjórn. Hvers vegna ættu þeir að vilja axla ábyrgð á millihlutastjórn þeirra og fá skammir fyrir það? Það væri allt annað mál að mynda minnihlutastjórn fram að mögulegum kosningum.“ Hvað nýjar kosningar varðar segir Baldur hins vegar engan veginn gefið að það myndi breyta neinu í stöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka