Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð gætu myndað tveggja flokka stjórn með meirihluta á Alþingi ef kosið væri nú samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis.is en samanlagt fengju flokkarnir 34 þingmenn kjörna. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 31,8% fylgi og 23 þingmenn og VG 17% fylgi og ellefu þingmenn.
Tveggja flokka stjórn með þingmeirihluta hefur ekki verið möguleiki í kjölfar þingkosninganna sem fram fóru í lok október. Einungis hafa verið mögulegar þriggja flokka meirihlutastjórnir eða ríkisstjórnir með fleiri flokka innanborð sé einungis horft til þingstyrks óháð mögulegum málefnaágreiningi. Nýjar kosningar gætu þannig hugsanlega skilað annarri niðurstöðu ef marka má könnunina en eins og staðan er í dag hafa Sjálfstæðisflokkurinn og VG 31 þingmann samanlagt og þyrftu því þriðja flokk til þess að ná meirihluta en 63 þingsæti eru á Alþingi.
Skoðanakönnunin bendir einnig til þess að áfram yrði hægt að mynda þriggja flokka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og fimm flokka stjórn VG, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar sé aðeins horft til þingmannafjölda en ekki mögulegs hugmyndafræðilegs ágreinings. Þingstyrkur fimm flokka stjórnarinnar yrði sá sami og nú eða 34 þingmenn en hin hefði fleiri en nú eða 35.
Kallað hefur verið eftir samstarfi Sjálfstæðisflokksins og VG ásamt þriðja flokki af áhrifafólki í báðum flokkum á undanförnum vikum. Þannig kallaði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja og oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu, eftir samstarfi flokkanna á vefsíðu sinni 23. nóvember. Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins forvera VG, kallaði einnig eftir samstarfi flokkanna í grein í Morgunblaðinu daginn eftir.
Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, tóku að sama skapi vel í mögulegt samstarf Sjálfstæðisflokksins og VG í þættinum Vikulokin á Rás 1 síðasta laugardag og Sturla Böðvarsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis og núverandi bæjarstjóri Stykkishólms, kallaði sömuleiðis eftir því að flokkarnir tækju saman höndum í ríkisstjórn á Facebook-síðu sinni á sunnudaginn.