Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verður með minnsta mögulega þingmeirihluta, ef hún kemst á koppinn eða samtals með 32 þingmenn á þingi af 63. „Þegar ríkisstjórn er mynduð með jafnlitlum meirihluta skiptir hver þingmaður miklu máli,” segir Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur.
Stefanía bendi á að í stjórnmálasögunni hefur það gerst áður að ríkisstjórn með lítinn meirihluta hafi verið við völd um árabil. Það var Viðreisnarstjórnin frá 1959 til 1971.
Hún bendir á að þingmeirihluti sé ekki endilega ávísun á farsælt stjórnarsamstarf því það hafi komið upp í sögunni að ríkisstjórn með góðan þingmeirihluta hafi fallið. Að sögn Stefaníu þarf að ríkja gott traust milli flokksforystu flokkanna til að ríkisstjórnarsamstarf haldi.
„Bjarni Benediktsson lagði upp með það í fyrstu en Benedikt Jóhannesson hefur hafnað því,“ segir Stefanía spurð hvort hún telji að ríkisstjórn myndi starfa í skjóli Framsóknarflokksins. Hún segir að það eigi eftir að koma betur í ljós, ef þessi ríkisstjórn (DAC) verði mynduð, þegar mál verði afgreidd hvort Framsóknarflokkur styðji ríkisstjórnina. Hún bendir einnig á að þá gæti stjórnin þurft að kaupa sér stuðning annarra þingflokka við afgreiðslu ákveðinna mála.