„Muni ganga í þetta sinn“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, kemur til fundarins í dag.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, kemur til fundarins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsti fundur formlegra stjórnarmyndunarviðræðna Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er hafinn í Alþingishúsinu. Fimm sitja fundinn. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður og varaformaður Viðreisnar, og Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. Fundurinn hófst klukkan 15:30.

Benedikt sagði við fréttamenn fyrir fundinn að verkefni næstu daga væru „að setja á blað þessar hugmyndir sem við höfum verið með og búa svo til stjórnarsáttmála og athuga hvort það gengur ekki. Ef það gengur þá erum við í góðum málum.“ Spurður hvort flokkarnir væru orðnir ásáttir um það hvernig ætti að standa að málum sagði Benedikt svo ekki vera. „En við erum búin að tala nóg saman þannig að við höldum að þetta muni ganga í þetta sinn.“

Spurður hvort það ætti líka við um Evrópumálin sagði Benedikt það vera vonandi. Annars kæmi það bara í ljós. Spurður áfram hvort búast mætti við nýrri ríkisstjórn í lok þessarar viku eða í byrjun þeirrar næstu sagðist Benedikt engu vilja lofa í þeim efnum. „Það skiptir ekki öllu máli úr því sem komið er hvort það gerist einum degi fyrr eða seinna. 

Benedikt var einnig spurður hvort hugmyndir væru uppi um að styrkja nauman meirihluta með fjórða flokkinum. Sagðist hann sjálfur ekki hafa hugsað um það. 

Bjarni og Óttarr gáfu ekki kost á viðtali. Ekki liggur fyrir hversu lengi fundurinn mun standa.

Fulltrúar flokkanna þriggja við upphaf fundarins í dag.
Fulltrúar flokkanna þriggja við upphaf fundarins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert