Þriðji fundurinn í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hófst um klukkan 15:40 í Alþingishúsinu en fundurinn átti upphaflega að hefjast klukkan þrjú. Honum seinkaði hins vegar þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti tafir og kom fyrir vikið ekki fyrr til fundarins.
Formlegar viðræður flokkanna þriggja hófust á mánudaginn en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Bjarna umboð til stjórnarmyndunar fyrir áramót í kjölfar óformlegra viðræðna flokkanna. Viðræðurnar virðast vera komnar vel á veg en Bjarni sagði í samtali við mbl.is í gær að mögulega yrði meðal annars rætt um skiptingu ráðherraembætta í dag.
Fréttavefurinn Vísir.is segist hafa heimildir fyrir því að samkomulag sé um það hversu marga ráðherra hver flokkur fái. Sjálfstæðisflokkurinn fái fimm ráðherra, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafði áður sagt að miðað yrði að einhverju leyti við þingstyrk flokkanna en Sjálfstæðisflokkurinn hefur flesta þingmenn.
Komið hafði fram áður að Bjarni yrði forsætisráðherra nái flokkarnir endanlega saman um stjórnarsamstarf. Vísir.is segir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi einnig embætti forseta Alþingis. Ekki hafa komið fram upplýsingar um mögulega ráðstöfun einstakra ráðuneyta að öðru leyti. Vangaveltur hafa verið um að Benedikt yrði hugsanlega fjármálaráðherra.
Formenn flokkanna þriggja hafa lýst sig bjartsýna á að viðræðurnar skili stjórnarsamstarfi en einnig sett fyrirvara um að ekkert væri í höfn fyrr en allt væri í höfn. Benedikt sagði í gær við mbl.is að ræða ætti flest stóru málin í dag. Þar á meðal eru væntanlega sjávarútvegsmálin og Evrópumálin þar sem um er að ræða mjög ólíka stefnu flokkanna þriggja.