„Þetta var góður fundur í dag og við höfum haldið áfram að fara yfir málin. Þetta skýrist smám saman en við erum ekki komin á endastöð heldur. Þannig að vinnan gengur vel og ástæðan til bjartsýni um að þetta geti gengið saman eykst alltaf hægt og rólega.“
Þetta sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is eftir þriðja fund formlegra stjórnarmyndunarviðræðna Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem fram fór í Alþingishúsinu í dag. Fundurinn hófst um klukkan 15:40 og lauk um tveimur tímum síðar. Flokkarnir halda áfram málefnavinnu fram að næsta viðræðufundi hver í sínu lagi en stefnt er að því að næsti fundur fari fram á morgun í kringum hádegið.
„Við erum náttúrulega alltaf að kafa dýpra ofan í málin og það er allt saman jákvætt,“ sagði Óttarr. Fréttavefurinn Vísir.is sagðist hafa heimildir fyrir því í dag að fyrir lægi að skiptingin yrði þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fimm ráðherra í fyrirhugaðri ríkisstjórn flokkanna þriggja, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo. Þá fengi Sjálfstæðisflokkurinn forseta Alþingis.
Spurður hvort rætt hafi verið um skiptingu ráðherra og hversu marga ráðherra hver flokkanna þriggja fengi í sinn hlut sagði Óttarr: „Það hefur auðvitað verið rætt meðfram alveg frá upphafi en við erum ekki búin að setjast niður og klára að semja um þau mál. Við höfum sett málefnin fram fyrir í vinnunni. En við eigum ekki von á að steyta muni á því.“
Málefnin séu í fyrirrúmi og forsenda endanlegrar skiptingu ráðuneyta sé að flokkarnir nái saman í þeim. „Við erum núna komin inn á nýtt ár og komið á þriðja mánuð frá kosningum og ég held að ábyrgðin sem hvílir á okkur og okkur öllum að koma á starfhæfri ríkisstjórn, hún bankar alltaf meira upp á hjá okkur. Það verður alltaf skýrara og skýrara í vinnunni.“