Stefnt að ríkisstjórn í næstu viku

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við gáfum okkur góðan tíma til að ræða þessa stöðu í stjórnmálunum og þessum stjórnarmyndunarviðræðum. Við fórum yfir allar útlínur í þessum stjórnarsáttmála og það komu fram sjónarmið eins og við er að búast,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is. 

Bjarni fundaði með þingmönnum flokksins í dag í Valhöll og stóð fundurinn yfir frá kl. 13:00 til rúmlega 16:30. Bjarni segir þingflokkinn hafa brugðist ágætlega við drögum að stjórnarsáttmála sem liggja fyrir um samstarf Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í næstu ríkisstjórn. 

Frétt mbl.is: Kann að leita út fyrir þingflokkinn

„Það eru auðvitað málamiðlanir þegar þrír flokkar koma saman, sem þarf að gera og það var góður stuðningur við að halda þessu áfram og klára stjórnarsamstarf á þessum nótum,“ segir Bjarni jafnframt. 

Hann kveðst bjartsýnn á að hægt verði að mynda sterka ríkisstjórn þrátt fyrir nauman meirihluta á þingi en flokkarnir þrír mynda með sér minnsta mögulega þingmeirihluta, 32 þingmenn.

„Það skiptir máli hvernig menn halda á völdunum, að menn leiti leiða til sátta þar sem það er hægt, leiti eftir samstarfi út fyrir stjórnarsamstarfið um niðurstöðu í málum þar sem það getur átt við.“ Telur Bjarni að á endanum ráðist velgengni slíkrar ríkisstjórnar frekar af því hvernig hún fer með völdin heldur en hversu marga þingmenn í meirihluta hún hefur. 

Sáttur við niðurstöðuna í umdeildum málaflokkum

Spurður hvort hann sé sáttur við niðurstöður í drögum sáttmálans hvað varðar málamiðlanir í málaflokkum á borð við Evrópumál og landbúnaðar- og sjávarútvegsmál segist Bjarni vera það.

„Ég get bara sagt það, ég er sáttur við niðurstöðuna í þessum málaflokkum. Einhverjir munu segja að þetta beri með sér að það hafi verið gerðar einhverjar málamiðlanir og það er alveg rétt,“ segir Bjarni. Vissulega hafi þurft að gera málamiðlanir líkt og í öllum ríkisstjórnum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið að og það hefði einnig átt við hjá öðrum ríkisstjórnum sem Sjálfstæðisflokkur hefði ekki átt aðild að. „Það er bara sá veruleiki sem við búum við eftir þessar kosningar.“

Spurður hvenær almenningur megi búast við að kynntur verði stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar segir Bjarni: „Við stefnum að því að geta myndað ríkisstjórn í næstu viku, ég ætla ekki að segja meira í bili.“

„Ég skal ekki útiloka það“

Spurður um skipanir í ráðherraembætti sagði Bjarni við fréttamenn að fundinum loknum að hann hyggist setjast niður með þingmönnum flokksins og ræða við þá maður á mann. Í framhaldi af því muni hann leggja fram tillögur um skipun í ráðuneyti. 

„Það er ekki gott að segja, ég skal ekki útiloka það en ég er ekkert sérstaklega að vinna að því og þetta er eitt af því sem ég þarf að meta eftir að hafa rætt við alla í þingflokknum,“ sagði Bjarni þegar hann var spurður hvort til greina komi að leita út fyrir þingflokkinn þegar kemur að skipun í ráðherraembætti, sérstaklega hvað varðar konur, en aðeins ein kona skipar oddvitasæti innan þingflokksins. „Það er auðvitað eitt af því sem að ég vil huga að og mun gera þegar ég kem með mína tillögu til þingflokksins um skipan ráðherrastóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert