„Mér er til efs að áður hafi verið mynduð ríkisstjórn hér á landi af jafnmiklu áhugaleysi og sú sem nú er í smíðum. Það virðist hreinlega ekki nokkur maður vera ánægður með afurðina,“ segir Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, á vefsíðu sinni um yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Björn segir ljóst að formenn flokkanna þriggja haldi spilunum þétt að sér og forðist að upplýsa bakland sitt um stöðu mála. Lengst gangi formaður Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum. Þingmenn flokksins virðist lítið vita um þróun mála. Sjálfur mæti Bjarni lítið í viðtöl en láti formönnum hinna flokkanna það eftir. Ekki virðist heldur vera almenn ánægja með fyrirhugaða ríkisstjórn.
„Þvert á móti virðist eiginlega enginn vera ánægður og hvergi sjáanleg merki um að nokkur maður sé að biðja um þá ríkisstjórn sem verið er að berja saman. Það er vel merkjanleg ólund bæði meðal stjórnmálamanna og almennings um málið. Þetta verður ólundarstjórn ef af verður.“