„Við erum enn þá á réttri leið,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, spurð hvort ný ríkisstjórn væri að fæðast. Ljóst væri að allir flokkarnir hefðu þurft að gera einhverjar málamiðlanir. Viðreisn hefði lagt áherslu á að forgangsraðað væri í þágu velferðarkerfisins og kerfisbreytingar.
Hanna Katrín sagði að flokkarnir þrír sem staðið hefðu í yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð, væru nokkuð samstíga og meðvitaðir um að þeir yrðu að vera það með þann nauma þingmeirihluta sem þeir hafi samanlagt. Flokkarnir hafa 32 þingmenn saman af 63 í heildina.
Hún tók undir það að ekki þyrfti þannig nema einn þingmann til þess að taka stjórnarmeirihlutann í gíslingu. Ríkisstjórnum með ríflegan meirihluta hefði hins vegar ekki alltaf gengið vel. Samstaða væri fyrir vikið nauðsynleg en á sama tíma yrðu einstakir þingmenn líka að hafa eðlilegt svigrúm til athafna.
Þótt viðræðurnar væru komnar langt á veg gæti enn margt gerst. Aðspurð sagðist Hanna Katrín vera sátt við drögin að stjórnarsáttmála flokkanna þriggja eins og hann hefði þróast „miðað við allt og allt“. Ef ekki bryti á neinu ætti ekki að taka marga daga að klára viðræðurnar. Hugsanlega yrði fyrir vikið nýr ráðherra í viðtali í næsta þætti af Sprengisandi sagði hún.