„Ég reikna ekki með því, ég sé ekki ástæðu til þess,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í fréttum Ríkisútvarpsins spurður hvort hann gerði ráð fyrir því að leita út fyrir þingflokk Sjálfstæðismanna þegar kemur að því að skipa ráðherra flokksins.
Spurður hvort hann hefði áhyggjur af kynjaskiptingu í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins sagði hann það eitt af því sem þyrfti að hafa í huga þegar tekin væri ákvörðun í þessum efnum. Sagðist hann stefna að því að kynna ráðherra flokksins annað kvöld.
Hvað ráðherra Sjálfstæðisflokksins varðar liggur einungis fyrir að Bjarni verði forsætisráðherra. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að flokkurinn fái auk forsætisráðuneytisins innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið og ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.