Viðreisn fundar með stjórn og síðar ráðgjafaráði flokksins í kvöld. Á þeim fundi verður farið yfir stjórnarsáttmála flokkanna þriggja, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar.
Nefnt hefur verið að þrjú ráðuneyti falli Viðreisn í skaut, fjármálaráðuneyti, sjávar- og landbúnaðarráðuneyti og félags- og húsnæðismálaráðuneyti í velferðarráðuneyti. „Þetta verður tilkynnt með pomp og prakt þegar að því kemur,“ segir Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar og varaformaður flokksins, spurð út í skiptingu ráðuneyta. Innt eftir því hvort hún geti staðfest að flokkurinn fengi þessi þrjú ráðuneyti sagðist hún ekki geta það en hins vegar neitaði hún því ekki.
Spurð hvort rætt verði á fundinum í kvöld um möguleg ráðherraefni bjóst hún ekki við því. „Ég veit ekki hvort við verðum komin á þann stað að við getum rætt það á þessum fundi í kvöld,“ segir Jóna.
Stjórnarsamstarf flokkanna þriggja verður væntanlega kynnt formlega á morgun, þriðjudag.