Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segist ekki hafa búist við því að fá strax þá ábyrgð að gegna ráðherraembætti, sem nýr þingmaður. Hún verður ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
„Ég lét í ljós að ég væri tilbúin að axla þá ábyrgð sem mér yrði falin og ég væri reiðubúin í þetta verkefni,“ sagði Þórdís Kolbrún að loknum þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís hefur starfað sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og er fyrrverandi aðstoðarmaður Ólafar Nordal, sem hefur gegnt embætti innanríkisráðherra.
„Mér líst mjög vel á verkefnið. Nýsköpunarmálin eru sérstaklega spennandi og kalla á mikla framtíðarsýn og mikil tækifæri. Ferðamálin eru orðin einn af grundvallaratvinnuvegum Íslands og það eru mikil verkefni þar fram undan. Það þarf að marka skýra stefnu þar og gera marga hluti. Ég hlakka til að takast á við þetta.“