Loftslagsmál verða sett á oddinn að sögn Bjartar Ólafsdóttur, þingkonu Bjartrar framtíðar sem verður umhverfisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokkins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Frétt mbl.is: Óttarr og Björt verða ráðherrar
„Helstu áskoranir eru þær að verkefnin eru mjög víðfeðm. Loftslagsmálin teygja sig inn í önnur ráðuneyti og það verður ákveðin list að draga aðra með sér í þau. Fólk er sammála um að huga vel að umhverfismálum og það verður gaman að takast á við verkefnin í samvinnu við það góða fólk sem á þarna sæti,“ sagði Björt í samtali við mbl.is eftir tilkynninguna.
Hún sagði að mikilvægt skref til að takast á við loftslagsvandann væri að fylgja eftir orkuskiptum í samgöngum, bæði á landi og sjó. Spurð um olíuleitina á Drekasvæðinu sagði Björt að stefna Bjartrar framtíðar sé að hefja ekki vinnslu.
„Núna eru einhver fyrirtæki sem eru í tilraunaborunum og fengu leyfi íslenskra stjórnvalda til þess. Það er stefna okkar í Bjartri framtíð að vera ekki í vinnslu á drekasvæðinu. Eins og þetta er að æxlast eru fleiri og fleiri fyrirtæki sem hafa fengið rannsóknarleyfi að skila inn leyfunum og það verður forvitnilegt að sjá hvernig þetta þróast.“