„Þetta er auðvitað krefjandi og mikið verkefni. Ég er afskaplega ánægður með það traust sem mér er sýnt af formanni flokksins og þingflokknum og ég mun gera mitt ýtrasta til að standa undir því trausti,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, sem verður utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn, að loknum þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur, sem áður hefur gegnt embætti heilbrigðisráðherra, sagði að það séu áskoranir og tækifæri á alþjóðasviðinu.
„Það hefur kannski verið meira umrót þar en hefur verið lengi og það skiptir afskaplega miklu máli að við höldum vel á hagsmunum Íslands í því samhengi. Það er í mörg horn að líta. Við vonumst til að við sjáum aukna fríverslun í heiminum en það hefur ekki verið mikil hreyfing á þeim hlutum á undanförnum árum og kannski áratugum. Á sama tíma skiptir máli að huga vel að öryggis- og varnarmálum. Það er eilífðarverkefni,“ sagði hann.
„Þó svo að kalda stríðinu sé löngu lokið þurfum við alltaf að vera á varðbergi þegar kemur að þeim hlutum.“