Þingmenn Viðreisnar þeir, Pawel Bartoszek og Jón Steindór Valdimarsson, eru sáttir með nýjan stjórnarsáttmála sem stjórnir Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks samþykktu í gærkvöldi. „Ég er tiltölulega glaður,“ segir Pawel.
„Þessi umræða - þetta atferli - sem var opinberað í tengslum við birtingu skýrslunnar [um eignir Íslendinga í aflandsfélögum] skyggir vissulega á, en þegar ég lít á stjórnarsáttmálann og það sem er framundan þar, þá er á ferðinni einhver frjálslyndasti stjórnarsáttmáli sem Ísland hefur átt. Að því leyti er ég gríðarlega glaður,“ sagði Pawel og staðfesti jafnframt að hann sé ekki að fara að setjast á ráðherrastól.
„Það er þó auðvitað eins og alltaf, þegar farið er í samstarf og samvinnu og margir koma að borðinu, að sumt er maður ánægður með og annað síður,“ segir Jón Steindór án þess að útskýra nánar hvað hann sé síður sáttur við.
Skýrsla um eignir Íslendinga í aflandsfélögum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti síðasta föstudag ollu þó nokkrum styr innan Viðreisnar og var ráðherra fenginn á símafund með þingmönnum í gær vegna þessa. „Þetta kom okkur svolítið í opna skjöldu,“ segir Jón Steindór og kveður það eiga jafnt við um hvernig að birtingu skýrslunnar var staðið, sem og frásagnir ráðherra um tímalínur og annað slíkt.
„Þetta eru vinnubrögð sem við viljum ekki standa fyrir og þetta varð til þess að við áttum miklar umræður um þetta og hvað við ættum að gera. Á endanum varð nú niðurstaðan sú að hugsa frekar til þess sem við gætum gert gott í framhaldinu.“ Jón Steindór segir Viðreisn enda hafa lagt áherslu á það í samtalinu við Bjarna að þetta væru vinnubrögð sem flokkurinn ætlaði sér ekki að stunda í nýrri stjórn.
Spurður hvort hann hafi verið sáttur við skýringar ráðherra segir hann: „Bjarni fór vel yfir þetta frá sínum sjónarhóli og við viljum trúa því að hann hafi að minnsta kosti ekki haft neinn sérstakan ásetning í þessu máli. Það breytir þó ekki því að vinnubrögðin eru ekki til fyrirmyndar – langt í frá.“
Pawel, sem var sáttur við svör Bjarna, segir skýrslumálið þó „ólíðandi“ að sínu mati. „Mér fannst svör Bjarna þó vera þess eðlis að ég treysti honum til að leiða ríkisstjórn. Ég er persónulega tilbúinn að leyfa honum að njóta vafans.“
Viðreisn færi landbúnaðar- og sjávarútvegshluta Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem þeir Pawel og Jón Steindór eru ánægðir með. Jón Steindór segir mikilvægt frá sjónarhóli Viðreisnar að flokkarnir hafi sammælst um að taka málaflokkana til rækilegrar skoðunar. „Þar með talið okkar áherslur og þá er auðvitað mikilvægt að þeir sem halda utan um ráðuneytið séu tilbúnir til þess í alvöru,“ segir hann.
Pawel segir ákveðin viðsnúning kunna geta orðið í þessum málaflokkum hjá nýrri stjórn, sérstaklega í landbúnaðarmálunum. „Þar erum við að setja af stað ferli sem er í þá átt sem okkur hugnast,“ segir hann. Þannig að „við förum að hugsa um málefni neytenda, ekki síður en málefni þeirra sem framleiða vöruna.“
Evrópusinninn Jón Steindór, sem var um árabil formaður Já Ísland sem er vettvangur þeirra sem vinna að Evrópusambandsaðild, er líka nokkuð sáttur við lendinguna í þeim málaflokki.
„Við vitum að annar samstarfsflokkurinn er mjög á öndverðum meiði við það, þannig að miðað við það þá er ég þokkalega sáttur við þessa niðurstöðu og held að það sé ekki endilega slæmt fyrir efni málsins að það dragist.“