Sjálfstæðisflokkurinn fær sex ráðherrastóla, Viðreisn fær þrjá og Björt framtíð tvo. Þetta kom fram í máli formanna flokkanna þriggja við kynningu á stjórnarsáttmálanum í Gerðarsafni í Kópavogi í dag.
Sjálfstæðisflokkurinn mun stýra forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, ráðuneyti ferðamanna-, iðnaðar- og nýsköpunarmála, menntamálaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu. Hinu síðastnefnda verður skipt upp í tvennt; ráðuneyti dómsmála og ráðuneyti samgöngu-, fjarskipta- og sveitarstjórnamála.
Viðreisn mun stýra fjármálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu. Björt framtíð mun stýra heilbrigðisráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu.
Bjarni sagði á fundinum að ekki væri búið að ákveða formennsku í nefndum þingsins.