„Ég greiddi atkvæði á móti þessu stjórnarsamstarfi. Mér þykir stjórnarsáttmálinn reyndar nokkuð góður, hann lítur bara nokkuð vel út fyrir utan Evrópumálin. Ég er algerlega ósáttur við að þau hafi verið afgreidd með þeim hætti sem gert var. En maður fær náttúrulega ekki allt sem maður vill. Eins reyndar með sjávarútvegsmálin og annað, það vantar tímasetningar varðandi svona stór mál. En mér finnst handbragð Bjartrar framtíðar vera mjög mikið á þessum stjórnarsáttmála þannig að mér líst bara nokkuð vel á hann yfir höfuð.“
Þetta segir Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og stjórnarmaður í flokknum, í samtali við mbl.is. Hann sat stjórnarfund Bjartrar framtíðar í gærkvöldi þar sem stjórnarsáttmáli fyrirhugaðrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var kynntur og ræddur. Fundurinn stóð í um þrjá tíma og var stjórnarsáttmálinn að lokum borinn undir atkvæði og samþykktur með 51 atkvæði gegn 18. Sáttmálinn var hins vegar samþykktur einróma af stofnunum hinna tveggja flokkanna samkvæmt fréttum.
„Það er alltaf eitthvað sem maður er ekki ánægður með en þessir tveir flokkar, Viðreisn og Björt framtíð, eru Evrópuflokkar og Viðreisn var hreinlega stofnuð sérstaklega út af Evrópumálunum. Þess vegna þykir mér alveg lygilegt að þeir skuli gefa svona mikið eftir í þeim. En það sem ég var ósáttastur við hins vegar var það að við skyldum ætla að gera Bjarna Benediktsson að forsætisráðherra. Ég hef ekkert á móti Bjarna sem persónu eða fólki í Sjálfstæðisflokknum. Mér hugnast bara ekki stefna þeirra,“ segir hann ennfremur.
Páll Valur segir ástæðuna fyrir því að hann hafi ekki viljað Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem forsætisráðherra vera Panama-skjölin svonefnd þar sem nafn Bjarna kom fyrir vegna aflandsfélags sem hann átti á sínum tíma. Sömuleiðis ákvörðun Bjarna um að birta ekki skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum fyrr en í síðustu viku þrátt fyrir að hafa fengið hana í hendur vel fyrir kosningar. Það væri einfaldlega ekki ásættanlegt að æðsti ráðamaður þjóðarinnar hefði sagt þjóðinni ósatt og leynt hana upplýsingum.
„Ég hef einfaldlega trú á lýðræðinu og beygi mig fyrir lýðræðislegri kosningu. Tapi ég henni þá sætti ég mig við það. Ég hef alltaf stutt Óttarr. Hann er góður maður og góður vinur minn og hefur staðist þennan storm undanfarið mjög vel. Ég var ekki sáttur við að hann skyldi gera þetta eins og það var gert og ég sagði honum það. En samt sem áður þá er hann formaður flokksins. Það kemur skýrt í lögunum okkar að hann hefur stjórnarmyndunarumboðið og ef þú getur ekki farið eftir leikreglunum áttu bara að vera að gera eitthvað annað,“ segir Páll Valur.
Þannig hafi hann flutt ræðu á stjórnarfundinum í gærkvöldi og lýst afstöðu sinni og ekkert skafið utan af henni. „Síðan flutti ég aðra ræðu eftir atkvæðagreiðsluna þar sem ég óskaði Bjartri framtíð til hamingju. Þetta er bara niðurstaðan. Maður verður bara að sætta sig við það. Á ég að óska þessari ríkisstjórn alls hins versta? Við erum að tala um stjórn landsins. Ég ber hamingju og hag þessarar þjóðar fyrir brjósti og auðvitað vona ég að þessari ríkisstjórn gangi sem best og að hún nái sem flestum málum í gegn og við náum okkar málum í gegn.“
„Ég hef fengið ótölulegan fjölda skeyta frá fólki sem segist hafa kosið Bjarta framtíð og er gríðarlega ósátt við þetta. Það er auðvitað líka fólk sem er sátt við þetta. En það var náttúrulega búið að reyna tvisvar fimm flokka stjórn. Björt framtíð var ekki að stöðva það,“ segir Páll Valur. Sjálfur hafi hann viljað fimm flokka umbótastjórn. Síðan yrði einnig að horfa til þess að fráfarandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, hefðu fengið fleiri þingmenn en flokkarnir sem skipuðu stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabils.
„Það verður allavega mjög athyglisvert að fylgjast með þessu. Þetta verður engin smá vinna,“ segir Páll Valur um fyrirhugað ríkisstjórnarsamstarf. „Ef tveir þingmenn Bjartrar framtíðar verða ráðherrar og það verða tveir þingmenn í þinginu þá verður þetta alveg svakaleg vinna.“ Spurður hvort hann telji að þingmenn Bjartrar framtíðar sem verði ráðherrar ættu að segja af sér þingmennsku segir hann að honum hafi þótt eðlilegast að kalla til utanþingsráðherra. Björt framtíð ætti nóg af góðum mannskap. En það væri ákvörðun Óttars.