Vill aukin viðskipti við Bandaríkin

Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, ásamt Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni hans, …
Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, ásamt Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni hans, og Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, við undirritun stjórnarsáttmálans í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrir það fyrsta ber okkur samkvæmt lögum að taka saman fjármálastefnu fyrir fimm ára tímabil og síðan verður það í hverju og einu ráðuneyti að fara yfir stjórnarsáttmálann og skoða hvar verkefni eru stödd og koma með þau sem fyrst inn í þingið,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi forsætisráðherra, í samtali við mbl.is spurður hver verði fyrstu verk nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar var undirritaður í Gerðarsafni í Kópavogi í dag. Eitt af fyrstu málunum verður annars yfirferð á peningastefnu Íslands að sögn Bjarna. Ekki er talað berum orðum um skattalækkanir í stjórnarsáttmálanum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum langt mikla áherslu á í stefnu sinni. Spurður hvort búast megi við lækkun skatta segir Bjarni:

„Það er talað um lækkun tryggingagjalds og nú voru skattar að breytast töluvert um áramótin. Við vorum að lækka lægra þrepið aðeins og fella út miðþrepið. Sömuleiðis voru tollar að falla niður í stórum stíl. Við þurfum að hafa augun á því það eru viss þenslumerki í hagkerfinu þannig að frekari skattabreytingar ættu að mínu mati í fyrsta lagi að ríma vel við hagsveifluna og síðan væri viturlegt að reyna að ná niðurstöðu um skattabreytingar í góðri sátt við vinnumarkaðinn að því marki sem það getur gagnast til þess að skapa frið á vinnumarkaðinum.“

Talað er meðal annars um áherslu á viðskiptafrelsi í stjórnarsáttmálanum. Spurður hvort hann sjái fyrir sér að ríkisstjórnin muni leggja áherslu á gerð fleiri fríverslunarsamninga segist Bjarni vonast til þess að áfram verði haldið sömu braut í þeim efnum og Ísland hafi verið að feta undanfarinn áratug. „Við höfum verið að ná mikilvægum fríverslunarsamninga tvíhliða og síðan höfum við líka á vettvangi EFTA verið að þrýsta fjölþjóðlega samninga.“

Þessu segist Bjarni vilja halda áfram og horfir í því sambandi ekki síst til Bandaríkjanna. „Ég held að það séu tækifæri í því til dæmis ef við fengjum opnun gagnvart Bandaríkjunum. Þá vil ég benda á það að við höfum verið að fella niður tolla og aðflutningshindranir og að því leytinu til ættum við ekki að reynast viðsemjendum okkar mjög erfiðir. En það er kannski á fjárfestingasviðinu, á þjónustusviðinu, eftir atvikum í landbúnaðarmálum og á einstaka öðrum sviðum þar sem við gætum sannarlega náð miklum árangri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert