Vill uppbyggingu á flugvellinum

Jón Gunnarsson ásamt forvera sínum í starfi samgönguráðherra, Ólöfu Nordal.
Jón Gunnarsson ásamt forvera sínum í starfi samgönguráðherra, Ólöfu Nordal. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, segir að það standi ekki til að taka skipulagsvald af Reykjavíkurborg svo að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hverfi ekki þaðan. 

„Ég mun fylgja málinu eftir frá því sem Ólöf Nordal skildi við það. Við gerum ráð fyrir því að það sé hægt að vinna að lausn þessa máls í samstarfi við Reykjavíkurborg,“ segir Jón.

„Það er ljóst að meginstarfsemi innanlandsflugsins verður á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri þangað til aðrar ákvarðanir verða teknar og það er ekkert sem er komið í neinn farveg með að taka aðra ákvörðun. Við þurfum að ná samkomulagi við Reykjavíkurborg um að þetta sé gagnkvæmur skilningur," segir Jón. 

„Það þýðir auðvitað ekki það að menn geti ekki horft til annarra mögulegra lausna inn í lengri framtíð. En það er að mínu viti mjög mikilvægt að hefja uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli þannig að hann megi þjóna hlutverki sínu. Sú aðstaða sem þarna í dag er óásættanleg bæði fyrir starfsfólk og farþega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert