Með latt auga eftir árásina

Bræðurnir eru einnig ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í ágúst.
Bræðurnir eru einnig ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í ágúst. mbl.is/Golli

Bræðurn­ir tveir, sem ákærðir eru fyrir að hafa skotið úr hagla­byssu við sölut­urn í Fella­hverfi í Breiðholti á síðasta ári, hafa einnig verið ákærðir fyr­ir sér­stak­lega hættu­lega lík­ams­árás í mars síðastliðnum.

Maðurinn, sem varð fyrir árásinni, bar vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Sagðist hann hafa þekkt bræðurna, þá Marc­in Wieslaw Naba­kowski og Rafal Ma­rek Naba­kowski, síðan hann var tíu ára. Þegar þarna var komið sögu hefðu þeir þó átt í einhverjum deilum.

Þennan dag hafi hann verið ásamt þáverandi kærustu sinni, í bíl hennar fyrir utan Leifasjoppu í Fellahverfi. Yngri bróðirinn, Marcin, hafi þá rifið upp bílhurðina og skvett sýru framan í hann, en í ákæru saksóknara segir að um hafi verið að ræða vatnsblandað ammoníak.

Líkamsárásin sérstaklega hættuleg

Því næst hafi bræðurnir báðir barið hann með kylfum, eða nunchucks, en svo kallast smærri kylfur með keðju á milli.

Sagðist maðurinn, sem er á þrítugsaldri, vera með svokallað latt auga eftir árásina, og að sjón sín væri verri á báðum augum, þó einkum á því vinstra. Þá þjáist hann af tíðum höfuðverkjum.

Í ákærunni er líkamsárásin sögð sérstaklega hættuleg, þar sem bræðurnir hafi meðal annars lamið mann­inn ít­rekað með kylfu og spýtu í höfuðið, þannig að hann var með mar á hálsi og höfði, og æt­ingu á augn­loki og augnsvæði.

Illa gekk að fá fleiri vitni í dómsal í dag. Var áframhaldandi aðalmeðferð málsins því frestað að sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert