Stórfurðuleg vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins hafa leitt til þess að formennska í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er nú í höndum stjórnarliða. Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í pontu Alþingis, en störf þingsins voru þar til umræðu.
Frétt mbl.is: Brynjar formaður stjórnskipunarnefndar
Hún sagði það ekki að ástæðulausu að nefndin hefði verið sett á laggirnar. Það hefði verið ákveðið í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
„Þá var það lagt til að formennska þessarar nefndar yrði hjá stjórnarandstöðu, þar sem í því fælist meðal annars möguleiki fyrir Alþingi til að tryggja sjálfstæði sitt gagnvart framkvæmdavaldinu.“
Birgitta sagði „stórfurðuleg vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins“ hins vegar hafa leitt til þess að formennska í nefndinni væri nú í höndum stjórnarliða.
„Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn sjái sóma sinn í því að læra af mistökum fortíðarinnar, og koma sér út úr svona vinnubrögðum.“
Frétt mbl.is: Gaf frá sér formennsku í þremur nefndum