Mál sem ákæruvaldið höfðaði gegn Pétri Gunnlaugssyni, lögmanni og útvarpsmanni á Útvarpi Sögu, fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs, hefur stórskaðað bæði Útvarp Sögu og mannorð Péturs persónulega. Þetta segir Pétur í samtali við mbl.is, en í morgun var málinu vísað frá dómi með þeim röksemdum að ummælin sem ákært var fyrir væru almenns eðlis og að ákæran væri óglögg.
Frétt mbl.is: Máli Péturs á Útvarpi Sögu vísað frá
Pétur segir að í sakamálum, eins og hafi verið staðan í þessu máli, þurfi að koma skýrt fram fyrir hvaða háttsemi ákært sé svo hinn ákærði geti varið sig. Segir hann að í þessu máli hafi aftur á móti verið ómögulegt að vita hver hin ákærða háttsemi var. Þannig hafi bara verið lagðar fram langar hljóðritanir úr útsendingu og að vísað hafi verið í hugtökin hatursorðræðu og útbreiðslu haturs án þess að þau kæmu fyrir í þeirri lagagrein sem vísað var til í ákæru.
Í úrskurði dómara kemur fram að samkvæmt lögum um meðferð sakamála þurfi að greina svo glöggt sem verða megi „hver sé sú háttsemi sem ákært er út af“. Það eigi ekki við í þessu tilviki þar sem ákært sé fyrir „hatursorðræðu og útbreiðslu haturs“ en það orð komi ekki fyrir í lögum sem vísað sé til. „Hlýtur þetta að teljast annmarki á ákærunni,“ segir í úrskurðinum og bætt er við að öllu alvarlegra sé þó að engin leið sé fyrir ákærða að átta sig á því fyrir hvaða ummæli nákvæmlega sé verið að ákæra. Þá segir dómarinn að ekki komi skýrt fram í ákærunni hvort Pétur sé ákærður fyrir bara ummæli sín eða einnig að hafa útvarpað ummælum hlustenda sem hringdu inn.
„Þetta hefur stórskaðað okkur og mig persónulega,“ segir Pétur og bætir við að hann hafi ekki bara þurft að þola og líða fyrir árásir gegn sér heldur hafi verið minnst á þetta mál í tveimur öðrum dómsmálum sem séu nú fyrir dómstólum. Annað þeirra mála tengist meðal annars ærumeiðingum. Segir Pétur að þar hafi verið vísað í þetta mál sem nú hefur verið vísað frá og sagt að hann væri ærulaus maður.
„Það hefur verið notað út um allt að hér sé hatursútvarp stjórnað af mér og Arnþrúði,“ segir Pétur. „Þetta er sú staða sem er komin upp.“ Spurður hvort hann hafi íhugað skaðabótamál nú þegar þetta mál sé frá segir hann að niðurstaðan hafi bara komið í morgun og enn ekki gefist tími til að fara yfir stöðuna.
Pétur segist hins vegar vilja fá afsökunarbeiðni frá lögreglustjóra vegna málsins. „Mér finnst eðlilegt í ljósi stöðunnar að lögreglustjórinn í Reykjavík biðji mig afsökunar.“ Segir hann nauðsynlegt að slík afsökunarbeiðni komi fram þar sem hann sjái málið sem trúnaðarbrest milli fjölmiðils og opinberra aðila. Þá segir hann Útvarp Sögu hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna málsins og nú sé verið að skoða framhaldið gagnvart hinu opinbera.
Pétur var ekki aðeins ákærður í málinu, heldur var hann verjandi í tveimur sambærilegum málum þar sem lögreglan ákærði fyrir hatursorðræðu. Segir hann að búið sé að leggja fram frávísunarkröfu í öðru málinu og hún verði tekin fyrir í mars. Í hinu málinu eigi enn eftir að skila greinargerð. Þá bendir Pétur á að ákært hafi verið í fleiri slíkum málum, en hann þekki ekki til stöðunnar þar.