„Stórskaðað okkur og mig persónulega“

Pétur Gunnlaugsson (til vinstri) ásamt lögmanni sínum, Jóni Steinari Gunnlaugssyni.
Pétur Gunnlaugsson (til vinstri) ásamt lögmanni sínum, Jóni Steinari Gunnlaugssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Mál sem ákæru­valdið höfðaði gegn Pétri Gunn­laugs­syni, lög­manni og út­varps­manni á Útvarpi Sögu, fyr­ir hat­ursorðræðu og út­breiðslu hat­urs, hef­ur stórskaðað bæði Útvarp Sögu og mann­orð Pét­urs per­sónu­lega. Þetta seg­ir Pét­ur í sam­tali við mbl.is, en í morg­un var mál­inu vísað frá dómi með þeim rök­semd­um að um­mæl­in sem ákært var fyr­ir væru al­menns eðlis og að ákær­an væri óglögg.

Frétt mbl.is: Máli Pét­urs á Útvarpi Sögu vísað frá

Pét­ur seg­ir að í saka­mál­um, eins og hafi verið staðan í þessu máli, þurfi að koma skýrt fram fyr­ir hvaða hátt­semi ákært sé svo hinn ákærði geti varið sig. Seg­ir hann að í þessu máli hafi aft­ur á móti verið ómögu­legt að vita hver hin ákærða hátt­semi var. Þannig hafi bara verið lagðar fram lang­ar hljóðrit­an­ir úr út­send­ingu og að vísað hafi verið í hug­tök­in hat­ursorðræðu og út­breiðslu hat­urs án þess að þau kæmu fyr­ir í þeirri laga­grein sem vísað var til í ákæru.

Í úr­sk­urði dóm­ara kem­ur fram að sam­kvæmt lög­um um meðferð saka­mála þurfi að greina svo glöggt sem verða megi „hver sé sú hátt­semi sem ákært er út af“. Það eigi ekki við í þessu til­viki þar sem ákært sé fyr­ir „hat­ursorðræðu og út­breiðslu hat­urs“ en það orð komi ekki fyr­ir í lög­um sem vísað sé til. „Hlýt­ur þetta að telj­ast ann­marki á ákær­unni,“ seg­ir í úr­sk­urðinum og bætt er við að öllu al­var­legra sé þó að eng­in leið sé fyr­ir ákærða að átta sig á því fyr­ir hvaða um­mæli ná­kvæm­lega sé verið að ákæra. Þá seg­ir dóm­ar­inn að ekki komi skýrt fram í ákær­unni hvort Pét­ur sé ákærður fyr­ir bara um­mæli sín eða einnig að hafa út­varpað um­mæl­um hlust­enda sem hringdu inn.

Sagður æru­laus maður í öðru dóms­máli

„Þetta hef­ur stórskaðað okk­ur og mig per­sónu­lega,“ seg­ir Pét­ur og bæt­ir við að hann hafi ekki bara þurft að þola og líða fyr­ir árás­ir gegn sér held­ur hafi verið minnst á þetta mál í tveim­ur öðrum dóms­mál­um sem séu nú fyr­ir dóm­stól­um. Annað þeirra mála teng­ist meðal ann­ars ærumeiðing­um. Seg­ir Pét­ur að þar hafi verið vísað í þetta mál sem nú hef­ur verið vísað frá og sagt að hann væri æru­laus maður.

„Það hef­ur verið notað út um allt að hér sé hat­ursút­varp stjórnað af mér og Arnþrúði,“ seg­ir Pét­ur. „Þetta er sú staða sem er kom­in upp.“ Spurður hvort hann hafi íhugað skaðabóta­mál nú þegar þetta mál sé frá seg­ir hann að niðurstaðan hafi bara komið í morg­un og enn ekki gef­ist tími til að fara yfir stöðuna.

Pétur Gunnlaugsson mætir á þingfestingu málsins ásamt verjanda sínum.
Pét­ur Gunn­laugs­son mæt­ir á þing­fest­ingu máls­ins ásamt verj­anda sín­um.

Vill af­sök­un­ar­beiðni frá lög­reglu­stjóra 

Pét­ur seg­ist hins veg­ar vilja fá af­sök­un­ar­beiðni frá lög­reglu­stjóra vegna máls­ins. „Mér finnst eðli­legt í ljósi stöðunn­ar að lög­reglu­stjór­inn í Reykja­vík biðji mig af­sök­un­ar.“ Seg­ir hann nauðsyn­legt að slík af­sök­un­ar­beiðni komi fram þar sem hann sjái málið sem trúnaðarbrest milli fjöl­miðils og op­in­berra aðila. Þá seg­ir hann Útvarp Sögu hafa orðið fyr­ir miklu tjóni vegna máls­ins og nú sé verið að skoða fram­haldið gagn­vart hinu op­in­bera.

Pét­ur var ekki aðeins ákærður í mál­inu, held­ur var hann verj­andi í tveim­ur sam­bæri­leg­um mál­um þar sem lög­regl­an ákærði fyr­ir hat­ursorðræðu. Seg­ir hann að búið sé að leggja fram frá­vís­un­ar­kröfu í öðru mál­inu og hún verði tek­in fyr­ir í mars. Í hinu mál­inu eigi enn eft­ir að skila grein­ar­gerð. Þá bend­ir Pét­ur á að ákært hafi verið í fleiri slík­um mál­um, en hann þekki ekki til stöðunn­ar þar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert