Leyfum Amir að koma aftur heim

Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir í Mílanó í dag.
Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir í Mílanó í dag. Skjáskot/Facebook

Stjórn SOLARIS – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, hvetur íslensk yfirvöld til þess að endurskoða ákvörðun sína um að vísa hælisleitendanum Amir Shokrgozar frá Íslandi til Ítalíu og leyfa honum að snúa til baka til Íslands þar sem hann á heima.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason hitti Amir í Mílanó á Ítalíu í dag. „Í hörðum heimi eigum við ekki að vera aflið sem brýtur niður fólk með járnhnefa. Ég mun ekki mæla styggðaryrði um Trump fyrr en Amir er kominn í fang kærasta síns, við erum nefnilega líka Trump,“ skrifaði Andri Snær á Facebook-síðu sína í kjölfar fundarins.

Frétt mbl.is: Andri Snær: Við erum líka Trump

Amir er hælisleitandi frá Íran, hann flúði heimaland sitt vegna kynhneigðar sinnar. Amir var áður á flótta á Ítalíu þar sem hann var ofsóttur, bæði líkamlega og andlega, jafnt fyrir kynhneigð sína sem og kristna trú, og var honum nauðgað af hópi í flóttamannabúðum þar í landi.

Í fréttatilkynningu samtakanna segir að Amir hafi verið á Íslandi í hátt í tvö ár þegar yfirvöld handtóku hann fyrir utan geðdeild á fimmtudag og „létu hann dúsa í fangaklefa þar til þeir sendu hann aftur til Ítalíu morguninn eftir. Það er óásættanlegt og með öllu ómannúðlegt að yfirvöld hafi sent Amir aftur á þann stað sem hann þurfti að upplifa andlegt og líkamlegt ofbeldi sem hófst á nýjan leik um leið og hann kom aftur til Ítalíu. Þar er hann einn, án peninga og húsnæðis til lengri tíma, en hann getur af augljósum ástæðum ekki leitað í flóttamannabúðirnar.“

Amir á unnusta á Íslandi og hefur m.a. verið að læra íslensku í Tækniskólanum og unnið sem sjálfboðaliði hjá Samtökunum 78 og Rauða krossinum. „Hér leið honum vel og upplifði meiri frið og ró en hann hefur upplifað lengi. Nú upplifir hann hins vegar ótta og óvissu á nýjan leik,“ segir í tilkynningunni. „Stjórn Solaris hvetur íslensk stjórnvöld til þess að leyfa Amir að koma aftur heim.“

Stjórn Solaris minnir á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kveður m.a. á um að „hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna“ sem og sameiginlega yfirlýsingu Solaris og Samtakanna 78 sem „skora á íslensk stjórnvöld að standa við skuldbindingu sína um að taka tillit til sérstakrar stöðu hinsegin flóttafólks og hælisleitenda, sem búa við fjölþætta mismunun vegna kynhneigðar, kynvitundar eða kyneinkenna.“

Undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Útlendingastofnun að leyfa Amir að koma til Íslands er hafin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka