Snjódýptin á höfuðborgarsvæðinu mældist 51 sentímetri klukkan 9 í morgun, sem er febrúarmet. Fyrra metið var 48 sentimetrar frá árinu 1952.
Að sögn Helgu Ívarsdóttur, vakthafandi veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, hefur mælst meiri snjódýpt í Reykjavík en það var í janúar árið 1937 þegar dýptin var 55 sentímetrar.
„Það er ekki algengt að fá svona mikið á skömmum tíma,“ segir Helga.
Snjórinn er enn meiri en Veðurstofan gerði ráð fyrir. Hún hafði spáð 30 sentímetra snjódýpt. Vegna mikils lofts í snjónum náði dýptin að verða meiri, að sögn Helgu.
Hún bætir við að snjódýptin á höfuðborgarsvæðinu hafi aldrei farið yfir 50 cm áður í febrúar og því sé þetta með því mesta sem mælst hefur.
Að sögn Helgu mun ekki snjóa meira á höfuðborgarsvæðinu í dag og næstu daga. Þurrt verður að mestu í dag og búast má við að snjórinn sjatni í dag og á morgun.
Út vikuna er spáð frosti og því er ljóst að snjórinn er ekki á leiðinni í burtu á næstunni.