Furðar sig á 70.000 kostnaðarþaki

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir fundi í velferðarnefnd Alþingis vegna orða heilbrigðisráðherra á Alþingi í síðustu viku varðandi fyrirkomulag á greiðsluþátttöku sjúklinga. Þar sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra að stefnt væri að því að þakið á kostnað sjúklinga á árið yrði 70.000 krónur.

Á Facebook-síðu sinni í gær segir Elsa að engin sátt hafi myndast um töluna 70.000 krónur á ári innan velferðarnefndar þegar það kemur að þaki á kostnað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Vitnar hún í nefndarálit nefndarinnar um greiðsluþátttöku sjúklinga þar sem segir að „Endanlegar tölur ráðast af fjárlögum næsta árs en miðað er við að almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.“ 

„Um þessa niðurstöðu nefndarinnar náðist þverpólitísk sátt,“ skrifar Elsa.  „Sátt um að þetta yrði fyrsta skrefið í átt að sanngjarnara kerfi, en síðan yrði að ganga lengra. Bæta fleiri þáttum inn í greiðsluþátttökukerfið eins og m.a. sálfræðikostnaði, auknum ferðakostnaði og sameina síðan greiðsluþátttöku sjúklinga vegna læknisaðstoðar og lyfja.
Núna fáum við hins vegar fréttir af því að greiðsluþakið verði 70 þúsund. Það myndaðist engin sátt um þá tölu innan nefndarinnar sl. vor.“

Óttarr sagði á Alþingi 2. mars að þumalputtaþakið í nýju kostnaðarþátttökukerfi væri 70 þúsund krónur á ári. „Í greiðsluþátttökukerfi fyrir læknisþjónustu sem við erum að taka í gagnið núna 1. maí verður þakið sett í reglugerð. Það er alla vega ljóst að annars vegar erum við að miða við þak sem verður einhvers staðar á þessu bili, 50–70.000, fyrir almenna einstaklinga, en síðan mikið lægra þak fyrir börn, aldraða og öryrkja. Mér finnst það alla vega mikilvægt fyrsta skref. Þar erum við í það minnsta að meðaltali að lækka kostnaðarþátttökuna frá því sem var,“ sagði Óttarr en bætti við að hann væri þeirrar skoðunar að það ætti að stefna neðar.

„Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stefna neðar. Síðustu tölur sem ég hef séð eru að við höfum náð kostnaðarþátttökunni niður í 17%. Annars staðar á Norðurlöndum er hún almennt á bilinu 14,8–17%. Mér finnst að við eigum alla vega ekki að gera verr en þær þjóðir gera best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka