Lögregla ræðir nú við meðleigjanda Arturs Jarmoszko, sem lýst var eftir í gær. Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir engar vísbendingar enn hafa borist um hvað hafi orðið af Arturi, en síðast er vitað um ferðir hans rétt fyrir miðnætti 1. mars þegar hann sést í öryggismyndavélum í Lækjargötu.
„Það er ekkert að frétta. Við erum aðallega í yfirheyrslum núna,“ segir Guðmundur Páll við mbl.is. Segir hann m.a. verið að ræða við ættingja og meðleigjenda Arturs.
Hann segir enga leit enn hafa verið skipulagða að Arturi, en býst fastlega við að lögregla muni vinna að því áfram um helgina að upplýsa hvarf hans.
Mbl.is hafði eftir Guðmundi Páli fyrr í dag að búið sé að kanna þann möguleika að Artur hafi farið úr landi en ekkert bendi til þess. Ekki sé þó búið að útiloka þann möguleika.
Verið er að skoða tölvu hans og „allt sem tengist honum“, sagði Guðmundur.
Fjölskylda Arturs tilkynnti um hvarfið til lögreglu í miðvikudag og lýst var eftir honum í gær. Að sögn frænku hans, Elwiru Landowska, hafði fjölskyldan þá leitað upplýsinga hjá þeim sem þekkja Artur og leitað á líklegum stöðum, en án árangurs.
Artur er 26 ára. Hann er grannvaxinn, 186 sm á hæð og með græn augu. Hann er talinn vera klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hans eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000 eða í einkaskilaboðum á Facebook, eða senda póst á gudmundur.pall@lrh.is.