Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að formlegri leit að Artur Jarmoszko, sem hefur verið saknað frá mánaðamótum, sé að ljúka. Hugsanlega verði leitað með drónum í dag en það var ekki hægt í gær vegna veðurs.
Meira en 80 björgunarsveitarmenn leituðu að Artur í gær en leitað var meðfram strandlengjunni frá Gróttu að Nauthólsvík, við Kópavogshöfn og Álftanes. Guðmundur segir að nú verði unnið eftir ábendingum sem kunna að berast.
„Við munum væntanlega ekki kalla út sveit nema við fáum einhverjar nánari vísbendingar,“ segir Guðmundur en lögreglan mun áfram rannsaka málið og reyna að upplýsa hvað varð um Artur. Síðast er vitað um ferðir hans rétt fyrir miðnætti 1. mars en þá sést hann á öryggismyndavélum í Lækjargötu.
Lögreglan mun funda vegna málsins á morgun en enn er unnið eftir því að ekkert saknæmt hafi átt sér stað.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Artur eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða í gegnum einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.