Lögreglunni hafa ekki borist neinar nýjar vísbendingar í tengslum við hvarf Arthurs Jarmoszko eftir að formlegri leit af honum var hætt á mánudaginn. Arthurs hefur verið saknað síðan um mánaðamótin en leit verður ekki hafin að nýju nema að lögreglu berist nýjar vísbendingar í málinu.
„Því miður, við höfum bara ekkert,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi. „Við skoðum allar vísbendingar sem koma, ef þær koma,“ bætir hann við. Því sé það eina í stöðunni sem stendur að bíða og sjá hvað setur.
Síðast er vitað um ferðir Arturs rétt fyrir miðnætti 1. mars en þá sést hann á öryggismyndavélum í Lækjargötu. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða í gegnum einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.