„Mönnum ekki til sóma“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég gef ekki mikið fyrir þessar skýringar. Menn verða bara að virða það við mig. Það er dálítið undarlegt í raun og veru að á sama tíma og kvartað er yfir afkomu landvinnslunnar stendur til opna nýja landvinnslu á vegum HB Granda á Vopnafirði,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, en eins og mbl.is hefur fjallað um hyggst fyrirtækið leggja af botnfiskvinnslu sína í bænum sem mun kosta 93 störf. 

Frétt mbl.is: Helsta ástæðan gengi krónunnar

„Ég verð bara að segja það. Sérstaklega í ljósi þess að sú fjárfesting hefur kostað HB Granda hundruð milljóna ef ekki milljarð. Þannig að ég verð bara að segja eins og er að ég gef ekki mikið fyrir þessar yfirlýsingar. En við ætlum að reyna að gera það sem við getum til þess vita hvað það er sem fyrirtækið raunverulega þarf til þess að geta haldið áfram þeirri starfsemi sem hér hefur verið,“ segir Vilhjálmur enn fremur í samtali við mbl.is.

„HB Grandi er eitt glæsilegasta sjávarútvegsfyrirtæki sem starfrækt er á Íslandi og við höfum verið stolt af því að vera hluti af því fyrirtæki. Því er þessi ákvörðun okkur gríðarlegt áfall. Sérstaklega í ljósi þess að þegar fyrirtækið var sameinað 2004 þá komum við með 50% afla þorskígildistonna inn í þá sameiningu þannig að okkur þykir mjög bagalegt að standa nú uppi berstrípuð á eftir,“ segir hann áfram um stöðu mála.

Frétt mbl.is: Mun hætta bolfiskvinnslu á Akranesi

HB Grandi hyggst funda með fulltrúum verkalýðsfélaganna á miðvikudaginn en eftir þann fund verður endanleg ákvörðun líklega tekin að sögn fyrirtækisins. „Við munum bara mæta á þennan fund með hugsanlega einhverjar hugmyndir um það hvernig megi breyta þessari ákvörðun því við viljum leggja mikla áherslu á að þetta glæsilega fyrirtæki verði áfram í okkar samfélagi.“ Bendir hann á að fyrirtækið hafi greitt út veglegan arð til eigenda sinna.

„Það gerist á sama tíma og menn sjá ástæðu til þess að taka lífsviðurværið af fólki sem hefur starfað lengi hjá þeim. Í sumum tilfellum á fimmta tug ára. Þetta er samfélagsleg ábyrgð og eins og ég sagði við fólkið hjá HB Granda í dag er þetta mönnum ekki til sóma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert