Stefnt til hafnar vegna gruns um ólöglegar rannsóknir

Seabed Constructon lá við Skarfabakka í síðasta mánuði.
Seabed Constructon lá við Skarfabakka í síðasta mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

Landhelgisgæslan stefndi norska rannsóknarskipinu Seabed Constructor til hafnar í gær. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að grunur leiki á að skipið hafi stundað ólöglegar rannsóknir í efnahagslögsögu Íslands. Skipið er í eigu norskrar útgerðar, en er í leigu bresks fyrirtækis.

Skipið lagði úr höfn í Reykjavík 22. mars sl. og hefur frá þeim tíma haldið sig á afmörkuðu svæði, sem er um 120 sjómílur suðaustur af Íslandi

„Þegar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði skýringa á athöfnum skipsins voru svörin sem fengust óljós og því var ákveðið að stefna skipinu til hafnar til að fá frekari skýringar,“ að því er segir í tilkynningu Gæslunnar.

TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar, var því fengin til að fljúga út að skipinu síðdegis í gær. Varðskipið Þór sigldi einnig í átt að skipinu og var komið til móts við það um hádegisbil í dag.

Búist er við að skipið komi til hafnar í Reykjavík í fyrramálið. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun þá taka við rannsókn málsins.

Að því er segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar þá verður tekin skýrsla af skipstjóranum, auk þess sem dagbækur og búnaður skipsins verða rannsakaður til að fá frekari upplýsingar um athafnir Seabed Constructor að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert