Norska rannsóknarskipið Seabed Constructor, sem Landhelgisgæslan hefur stefnt til hafnar vegna gruns um ólöglegar rannsóknir, hefur undanfarna daga haldið sig á svæðinu þar sem þýska flutningaskipið Minden sökk í seinni heimsstyrjöldinni.
Fréttavefur RÚV greinir frá því að grunur leiki á að töluverð verðmæti leynist í skipinu og að fyrirtækið sem leigir Seabed Constructor hafi áhuga á að kanna hvort og hvaða verðmæti er þar að finna.
Á fréttavef RÚV segir að Minden hafi verið þýskt flutningaskip sem sökk árið 1939. Skipið sé á skrá yfir skipsflök í heiminum, staðsetning þess er því þekkt og samkvæmt lögum um efnahagslögsögu og landgrunn þurfi leyfi fyrir vísindalegum rannsóknum, sem rannsókn á flakinu sé túlkuð sem.
Haft er eftir lögmanni Ocean Limited, fyrirtækis sem er hluti af stærri hópi fyrirtækja sem sjá um björgunarleiðangra vegna björgunar skipsflaka, að fyrirtækið muni sýna sýna fullan samstarfsvilja með yfirvöldum og veita allar upplýsingar sem krafist er.