Kafarar hafa verið sendir til að kanna botn norska rannsóknarskipsins Seabed Constructor. Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að verið sé að athuga hvort skipið hafi sérstakan búnað sem hafi verið notaður til að rannsaka skipflak þýska flutningaskipsins Minden.
„Það er liður í rannsókn málsins; kanna hvaða búnaður er undir skipinu. Þau rannsóknartæki sem kunna að vera á skipinu tengjast botninum oft,“ segir Georg. Ekki er komið í ljós hvort leitin hafi borið árangur.
Greint hefur verið frá því að norska rannsóknarskipinu Seabed Constructor var stefnt til hafnar vegna gruns um ólöglegar rannsóknir. Það hefur undanfarna daga haldið sig á svæðinu þar sem þýska flutningaskipið Minden sökk í seinni heimsstyrjöldinni.
„Nú er þetta í höndum lögreglu og það er spurning hvað hún telur sig þurfa að gera til að fá góða mynd af þessu máli. Næsta skref tel ég að skipið sæki um leyfi eða komi sér í burtu. Eða hvort tveggja, því þessi leyfisumsókn tekur tíma,“ segir Georg.
Búið er að taka skýrslu af skipstjóranum en næstu skref eru að fara yfir tölvur og skipbækur til að rekja ferðir og athæfi skipverja. Georg segir að ekki sé komið á hreint hvort um saknæmt athæfi sé að ræða.
„Það er ekki víst en það er eitthvað sem rannsóknin þarf að leiða í ljós.“