Norska rannsóknarskipið Seabed Constructor kom til í Reykjavík á áttunda tímanum í morgun. Greint var frá því í gær að Landhelgisgæslan hefði stefnt skipinu til hafnar, vegna gruns um ólöglegar rannsóknir í íslenskri efnahagslögsögu.
Seabed Constructor er í eigu norskrar útgerðar, en er í leigu bresks fyrirtækis. Greindi RÚV frá því í gær að skipið hefði undanfarna daga haldið sig á svæðinu, þar sem þýska flutningaskipið Minden sökk í seinni heimsstyrjöldinni og að grunur leiki á að fyrirtækið sem leigi skipið sé að kanna hvort verðmæti leynist í skipinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú tekið við rannsókn málsins. Að því er fram kom í tilkynningu Landhelgisgæslunnar í gær verður nú tekin skýrsla af skipstjóranum, auk þess sem dagbækur og búnaður skipsins verður rannsakað til að fá frekari upplýsingar um athafnir skipsins að undanförnu.