„Ekki skemmta skrattanum enn einu sinni með stofnun flokks á vinstrivængnum. Sameinuð erum við sterk en sundruð höfum við lítil áhrif og höfum ekki afl til að hreyfa við stóru málunum sem hugsjónir okkar brenna fyrir. Verum skynsöm, verum saman og göngum skipulögð til verka.“
Þetta segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, í færslu á Facebook-síðu Sósíalistaflokks Íslands sem Gunnar Smári Egilsson vinnur að því að setja á laggirnar en að hans sögn hafa nokkur hundruð manns skráð sig í flokkinn.
Frétt mbl.is: „Peningar drepa stjórnmál“
Oddný biðlar þar til þeirra sem standa að stofnun Sósíalistaflokksins „að bíða aðeins og gera þá tilraun að styrkja Samfylkinguna jafnaðarmannaflokk Íslands með kröftum ykkar. Samfylkingin er með góða innviði út um allt land þar sem borin er uppi nákvæmlega sama stefna og þið boðið.“
Samfylkingin fékk 5,7% fylgi í þingkosningunum í október á síðasta ári og 12,9% í kosningunum 2013. Fyrir það hafði kjörfylgi flokksins verið að á bilinu 27-31%. Samfylkingin var formlega stofnuð árið 2000 en bauð fyrst fram við þingkosningarnar 1999 sem kosningabandalag.
Flokkurinn var stofnaður með samruna Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Kvennalistans og Þjóðvaka. Markmiðið með flokknum var að skapa breiðfylkingu vinstrimanna. Hins vegar voru ekki allir reiðubúnir til þess og stofnaði hópur fólks Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.
Jóhanna biðlaði til Evrópusambandssinna 2011
Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, sendi frá sér hliðstætt ákall til Evrópusambandssinna í öðrum flokkum í ræðu sem hún flutti á flokksstjórnarfundi flokksins í maí 2011 en þá sýndu skoðanakannanir hann með um 22% fylgi sem þótti ekki gott.
Jóhanna sagði Samfylkinguna eiga að standa opna fyrir öllum sem ættu samleið með flokknum. Sagði hún ýmsa í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum eiga samleið með Samfylkingunni í stórum málum eins og til að mynda í afstöðunni til Evrópusambandsins.
„Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi. Í þessum efnum má ekki standa á okkur í Samfylkingunni.“