Til í samstarf við Gunnar Smára

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar.
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar. Ljósmynd/Alþýðufylkingin

„Fyrir það fyrsta er enn mjög óljóst fyrir hvað þessi stjórnmálaflokkur mun standa nákvæmlega og það verður fróðlegt að vita hvort það eigi eftir að skýrast. En ef stefna flokksins verður sambærileg við okkar stefnu finnst mér mjög undanlegt að stofna nýjan flokk án þess að ræða fyrst við okkur. Ef stefnan verður hins vegar allt önnur væri gott að það skýrðist.“

Frétt mbl.is: „Peningar drepa stjórnmál“

Þetta segir Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, inntur eftir viðbrögðum við fréttum af fyrirhugaðri stofnun Sósíalistaflokks Íslands sem fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson er í forsvari fyrir. Alþýðufylkingin, sem byggir á sósíalískri hugmyndafræði, hefur starfað undanfarin ár og boðið fram í kosningum. Síðast í þingkosningunum í október.

„Við lítum svo á að það sé eðlilegt að einstaklingar raðist í flokka eftir skoðunum og innan þeirra ráðist síðan hverjir séu í forystu en hún sé ekki ákveðin fyrirfram og flokkurinn myndaður utan um hana. Það hefur verið tilhneiging hér á Íslandi að flokkar hafa frekar verið myndaðir í kringum einstaklinga en stefnur. Hvað þennan flokk varðar á það bara eftir að koma í ljós.“

Engin áhrif á starfsemi Alþýðufylkingarinnar

Þorvaldur segir að Alþýðufylkingin muni einfaldlega halda sínu striki og berjast fyrir hugsjónum flokksins. Fyrirhuguð stofnun Sósíalistaflokks Íslands, sem til stendur að fari formlega fram á verkalýðsdaginn 1. maí, hafi þar engin áhrif á. „En við viljum gjarnan ræða við þennan flokk og heyra hvað hann hefur fram að færa og hvert hann stefnir.“ Bendir hann á að Sósíalistaflokkur Íslands hafi ekki enn stefnu í stórum málum eins og varðandi Evrópusambandið.

Þannig hafi Alþýðufylkingin alltaf verið mjög opin fyrir því að ræða við aðra flokka og eiga við þá samstarf hafi flötur verið á því. Þar skiptu hugsjónirnar aðalmáli og hverju væri hægt að koma til leiðar. Spurður hvort Alþýðufylkingin væri reiðubúin að ræða við Sósíalistaflokk Íslands um samstarf segir Þorvaldur það vel koma til greina.

„Við höfum óskað eftir því að ræða við Gunnar Smára og hann hefur tekið vel í það. Hvert þær viðræður leiða á síðan bara eftir að koma í ljós.“

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands.
Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert