Vill einnig minni lyfjakostnað

Ástrós Rut Sigurðardóttir og Bjarki Már Sigvaldason.
Ástrós Rut Sigurðardóttir og Bjarki Már Sigvaldason. Ljósmynd/Ástrós Rut Sigurðardóttir

„Þetta mun að sjálfsögðu skipta máli því maður þarf að borga minna. Þetta er mjög jákvætt skref í rétta átt en málið er að lyfjakostnaður getur verið ofboðslega hár,“ segir Ástrós Rut Sigurðardóttir um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu.

Ástrós vakti í síðasta mánuði athygli á greiðslubyrði langveiks fólks með Facebook-myndbandi sínu en eiginmaður hennar, Bjarki Már Sigvaldason, hefur glímt við krabbamein í fimm ár.

Sér ekki hvernig dæmið gengur upp 

Vegna veikinda sinna er Bjarki Már 100% öryrki. Samkvæmt greiðsluþátttökukerfinu þurfa öryrkjar framvegis ekki að borga meira en 16.400 krónur á mánuði fyrir heilbrigðisþjónustu.

Ástrós er ánægð með þessa breytingu en bendir á að lyfjakostnaður geti verið mjög hár.„Það er vonandi að í nánustu framtíð verði líka sett þak á lyfjakostnað. Ef það verður ekki gert verður mánaðarlegur kostnaður mjög hár, svo ég tali ekki um öryrkja sem eru að fá 190 þúsund krónur á mánuði. Ég sé ekki hvernig reikningsdæmið gengur upp þó svo að þetta verði lækkað í 16.400 krónur á mánuði.“

Hún kveðst ekki vita hvað hún og Bjarki Már greiða núna að meðaltali á mánuði. Það sé mjög mismunandi og geti verið allt frá einhverjum þúsundköllum í marga tugi þúsunda.

Ástrós gagnrýnir einnig að öryrkjar þurfi í raun að borga sig upp í afsláttarþrepið sitt á hverju ári. „Það er fáránlegt ef þú ert 100% öryrki að þú þurfir að vinna þér inn réttindi til að fá að vera öryrki, til að fá afsláttinn,“ segir hún.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fundar með heilbrigðisráðherra

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra brást við myndbandi Ástrósar með eigin færslu á Facebook þar sem hann sagði að það væri þyngra en tárum taki að heyra sögu hennar. Aðstoðarmaður Óttars sendi Ástrós tölvupóst 1. apríl þar sem hann sagðist ætla að finna heppilegan fundartíma svo að þau geti hist með Jóni Þór Ólafssyni pírata sem hefur látið sig málið varða.

„Ég býst við að fá fundarboð frá honum á næstu dögum eða eftir páska. Ef ekki ætla ég að ýta á hann,“ segir hún, enda telur hún mjög mikilvægt að þau ræði saman. „Hann getur kannski ekki sett sig í þessi spor, sem er skiljanlegt, en hann getur kannski fengið innsýn í hvernig það er að þurfa virkilega á kerfinu að halda og að koma að svona mörgum lokuðum dyrum.“ 

Ástrós ætlar einnig að spyrja Óttar hvort honum finnist réttlætanlegt að öryrkjar fái um 190 þúsund krónur á mánuði. „Bæturnar eru mun lægri en það kostar að lifa í dag.“

Uppfært kl. 10.10: 

Nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga tók gildi 4. maí 2013. Um er að ræða almenn lyfseðilsskyld lyf sem Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að greiða. Lausasölulyf og svonefnd S-lyf sem eru notuð á sjúkrahúsum falla ekki undir kerfið.

Ef kostnaður fer upp fyrir ákveðið þak innan 12 mánaða getur læknir sótt um þakskírteini. Þá greiða SÍ 100% af lyfakostnaði það sem eftir er af tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka