Þorsteinn Friðrik Halldórsson
Rannsóknarskipið Seabed Constructor er aftur komið á slóðir þýska kaupskipsins Minden, sem sökkt var 1939 norðvestur af Færeyjum. Áhöfnin hefur líklega hafist handa við að fletta upp flakinu til að hífa verðmæti án starfsleyfis en ríkisstofnanir benda hver á aðra.
„Ég held að þeir séu byrjaðir að klippa skrokkinn til að moka upp úr flakinu,“ segir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. „Við fengum boð frá skipstjóranum þess efnis að hann túlkaði þetta svo að honum væri heimilt að hefjast handa.“ Að sögn Georgs hefur Landhelgisgæslan tvo menn um borð í skipinu en hefur gert ráðstafanir til að sækja þá með þyrlu í ljósi upplýsinga um að starfsemin sé ekki leyfisskyld.
„Ég veit að þeir voru búnir að setja stórvirk tæki niður á flakið, klippur til að klippa í sundur skrokkinn og síðan tæki til að hífa upp það sem þeir segja mjög óljóst að séu verðmætir málmar. Þeir ætla að reyna að opna dekkið eins og sardínudós,“ segir Georg í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.