Evrópusambandið mun gjalda fyrir það ef sambandið refsar Bretlandi fyrir að segja skilið við það. Þetta er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í viðtali við breska dagblaðið Daily Telegraph. Ráðherrann segir ennfremur að Evrópusambandið ætti að semja við Bretland um hliðstæð viðskiptakjör og Bretar njóta þegar innan sambandsins. Það væri öllum í hag.
„Það verða engir sigurvegarar ef við ætlum að koma upp viðskiptahindrunum. Ég tel að það sé öllum augljóst þegar allt kemur til alls að það sé öllum í hag að fríverslun ríki áfram í Evrópu,“ er sömuleiðis haft eftir ráðherranum en hann hefur að undanförnu fundað með ráðamönnum í ýmsum Evrópuríkjum. Þar á meðal Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. Þar kom fram að mikill vilji væri hjá Bretum að semja við Íslendinga um áframhaldandi viðskipti og samstarf.
„Hvað felur það í sér að reisa tollamúra? Það þýðir einfaldlega að stjórnmálamenn í öðrum ríkjum Evrópusambandsins munu þurfa að útskýra fyrir þeim sem myndu missa vinnuna að það væri vegna þess að taka þyrfti hart á Bretunum,“ segir Guðlaugur ennfremur. Líkir hann Íslandi í þessum efnum við barn sem lent hefur á milli foreldra í miðjum hjónaskilnaði.
Kallar Guðlaugur eftir meiri sveigjanleika af hálfu Evrópusambandsins og bendir á að samstarf Evrópuríkja sé þegar með ýmsum formerkjum auk sambandsins; Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Evrópska efnahagssvæðisins, Schengen-samstarfsins, evrusvæðisins og Atlantshafsbandalagsins (NATO). Ríki eigi að geta sagt sig frá einum hluta þess samstarfs en verið áfram aðili að öðrum.
Hins vegar segir Guðlaugur að nauðsynlegt sé fyrir bresk stjórnvöld að sýna Evrópusambandinu ákveðinn skilning í tengslum við útgöngu Bretlands úr sambandinu. Einkum þegar komi að fjármagni. Vísar hann þar til fjárlagahallans í bókhaldi Evrópusambandsins sem útganga Breta mun skapa. Bretland verði að finna leiðir til þess að „mýkja“ áfallið í þeim efnum ef landið vilji góðan samning við sambandið.