„Við tókum þátt í pallborðsumræðum um Brexit og hver næstu skref stúdenta, þá sérstaklega í Bretlandi, eru varðandi Brexit,“ segir Aldís Mjöll Geirsdóttir í samtali við mbl.is. Hún og Sunna Mjöll Sverrisdóttir eru staddar í Bretlandi á vegum LÍS, Landssamtaka íslenskra stúdenta.
Tæpt ár er síðan Bretar kusu um úrsögn úr Evrópusambandinu og enn ríkir mikil óvissa um hver áhrif þess verða á menntakerfið. „Sérstaklega þá fyrir nemendur, frá aðildarríkjum ESB, sem koma til Bretlands,“ segir Aldís en óvíst er hvort skólagjöld þeirra hækki. „Munu nemendur utan Bretlands ekki geta stundað nám þar eins og áður?“
Aldís segir bresku stúdentasamtökin gera sér grein fyrir því að ástandið sé slæmt og nefnir sem dæmi Erasmus-samstarfið. Það er styrktarsjóður landa innan ESB sem styrkir nemendur meðal annars til skiptináms en Ísland er aðili að samstarfinu í gegnum EES-samninginn.
„Stúdentar eru mjög áhyggjufullir og reiðir að missa það samstarf,“ segir Aldís og bendir á að bresku samtökin hafi áhyggjur af því að nemendur þeirra geti síður farið í skiptinám og sömuleiðis að nemendur frá öðrum löndum geti síður komið til Bretlands.
Óvissan hefur einnig áhrif á íslenska nemendur sem hyggjast stunda nám í Bretlandi. „Það er svolítið erfitt að kortleggja hvaða áhrif þetta hefur beint á íslenska nemendur. Við erum í EES þannig að nemendur frá Íslandi geta nýtt sér EES-samninginn en þurfa samt að geta sýnt fram á að þeir hafi verið í vinnu í Bretlandi í einhverja mánuði áður en þeir hefja nám og þá fá þeir lækkuð skólagjöld,“ útskýrir Aldís.
Hún bætir því við að það sé nokkuð snúið, enda kostnaðarsamt, fyrir íslenska nemendur að sækja nám í Bretlandi vegna þess að við stöndum fyrir utan Evrópusambandið. „Við getum þá rétt ímyndað okkur að það verði erfiðara þegar Bretland er ekki lengur hluti af ESB og við getum ekki nýtt og EES-samninginn eins og við gerum núna.“
Aldís segir að umræður hafi ekki eingöngu verið neikvæðar en úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í fyrra hafi vakið mikla athygli meðal ungs fólks. „Ungt fólk er að átta sig á mikilvægi þess að kjósa og kynna sér málefnin. Þetta eru málefni sem hafa áhrif á framtíð ungs fólks, það er verið að kjósa um framtíð ungs fólks.“